Fréttir

07.08.2014

Fræðigrein um eyðingu birkiskóga Þjórsárdals

Ofnýting skóganna helsta orsökin

Ofnýting birkiskógarins í Þjórsárdal var ein stærsta ástæða þess að skógurinn hvarf að mestu á um 14.000 hektara svæði í dalnum frá seinni hluta sextándu aldar fram á þá tuttugustu. Stóran þátt í þessari ofnýtingu átti biskupsstóllinn í Skálholti og lénskirkjur hans eða prestsetur. Um þetta fjalla þrír íslenskir vísindamenn í grein sem nýkomin er út í tímaritinu Human Ecology.

Höfundar greinarinnar eru þau Friðþór Sófus Sigurmundsson, landfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands, Guðrún Gísladóttir, prófessor í landfræði við líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, og Hreinn Óskarsson, doktor í skógfræði, sem starfar bæði sem skógarvörður á Suðurlandi og framkvæmdastjóri Hekluskóga.

Í greininni tíunda þremenningarnir þær geysimiklu breytingar sem orðið hafa á gróður- og jarðvegsþekju á Íslandi frá landnámi, hvernig birkiskógurinn sem þakti stóran hluta landsins hvarf að mestu og landið blés upp. Á það er bent í upphafi greinarinnar að fáar rannsóknir hafi verið gerðar á því hvernig útbreiðsla birkis breyttist staðbundið í aldanna rás. Meginmarkmið rannsóknarinnar sem greinin fjallar um var annars vegar að kortleggja breytingar á útbreiðslu birkiskóga á 14.000 hektara svæði í Þjórsárdal á 350 ára tímabili, frá ofanverðri sextándu öld og fram í byrjun þeirrar tuttugustu. Hins vegar var meiningin að varpa ljósi á það hvernig samfélagslegir og efnahagslegir þættir höfðu áhrif á þróun þessara skóga, auk náttúrlegra þátta. Þá voru könnuð þrjú tímabil, 1587-1708, 1708-1880 og1880-1938.

Við rannsóknina var notast við ýmsar ritaðar heimildir, GIS-landupplýsingakerfi og vettvangsrannsóknir á svæðinu. Um helmingur Þjórsárdals var þakinn birkiskógi á síðari hluta sextándu aldar en þremur og hálfri öld síðar höfðu 94% skógarins eyðst. Ákaft og að mestu stjórnlaust var sótt í þetta skóglendi eftir eldiviði og hráefni til kolagerðar. Meginástæðurnar fyrir þessari þróun voru af félagslegum og efnahagslegum toga en eignarhaldið á skóginum hafði mikil áhrif á örlög skógarins. Harðindi og eldgos hjálpuðu enn fremur til við eyðinguna þegar skógurinn var ekki lengur samfelldur og kominn á það stig að hann gat ekki endurnýjast.

Fram kemur í greininni að þeir hlutar skóganna í Þjórsárdal sem voru í eigu biskupsstólsins í Skálholti eða heyrðu undir kirkjulén voru ofnýttir og eyddust mun hraðar en það skóglendi dalsins sem var í eigu annarra. Ofnýtingin olli því að skógarnir urðu mjög viðkvæmir fyrir áföllum og því gátu einstakir viðburðir eins og eldgos og stórviðri dugað til að koma skógunum í það horf að þeir gátu ekki vaxið upp aftur. Þá voru þeir berskjaldaðir fyrir ágangi rofaflanna. Einnig kemur fram að svökölluð litla-ísöld hafi sömuleiðis spilað inn í, aðallega á þann veg að sumur urðu of stutt til að birkið gæti þroskað fræ til endurnýjunar skóginum. Þannig var rofin sjálfbær hringrás birkiskógarins í Þjórsárdal.

ÞjórsárdalurÞjórsárdalur

Kort: Springer Science+Business Media New York 2014

Mynd af birki í Þjórsárdal: Hreinn Óskarsson

Texti: Pétur Halldórsson

banner5