Fréttir

22.07.2014

Vel heppnaður skógardagur á Vöglum

Grisjunarvélin vakti mikla athygli og hrifningu

Skógardagur var haldinn á Vöglum í Fnjóskadal sunnudaginn 20. júlí í björtu og fallegu veðri og tæplega 20 stiga hita. Sýnd var grisjunarvél að störfum og vakti mikla athygli og hrifningu gesta sem voru nokkuð á annað hundrað talsins. Einnig var fræframleiðslan í fræhöllinni á Vöglum kynnt og eldiviðarframleiðslan. Að sjálfsögðu var svo í boði ketilkaffi og ljúffengir ástarpungar og kleinur með.
Vaglaskógur er gróskumikill í sumar eins og skógar um allt land enda gróðrartíðin einstök, hlýtt og úrkomusamt. Guðni Þorsteinn Arnórsson aðstoðarskógarvörður benti á gömlu bjarkirnar í skóginum og hafði á orði að nú sæist á þeim hæðarvöxtur. Venjulega eru þær fremur kollóttar að ofan, hæstu greinar sveigðar út til hliðanna og lítið um sprota upp úr en þessu er öðruvísi varið.Nú er gróðrartíðin svo mikil að jafnvel elstu birkitrén sýna hæðarvöxt. Eldiviðarvélin á Vöglum fangaði athygli gestanna meira en loftbelgur sem sveif yfir dalnum og ekki eru slíkir þó algeng sjón hérlendis.
Fræframleiðslan
Í fræhöllinni fóru Guðni Þorsteinn og Valgerður Jónsdóttir, umsjónarmaður fræbankans á Vöglum, yfir framleiðsluna. Metár hefði verið í fyrra í framleiðslu á fræi af lerkiblendingnum Hrym og náðst fræ sem dygði í um 400.000 plöntur. Minni uppskera yrði í ár af lerkifræi.
Grisjunarvél kynnt
Gestir á skógardeginum á Vöglum fylgdust af miklum áhuga með þegar Kristján Már Magnússon skógverktaki kynnti grisjunarvél sína. Hann fór yfir möguleika og kosti vélarinnar og sagði til dæmis frá þeim miklu kröftum sem þarna eru að verki.Það væri ekki að ástæðulausu að fólk væri beðið að vera í öruggri fjarlægð frá vélinni enda gætu spýst flísar í allar áttir og ef keðjan slitnaði í söginni gæti hún flogið á ógnarhraða út í skóg. Þegar vélin afkvistar trjábol fer bolurinn á 5 metra hraða á sekúndu og ekki gott ef bolurinn skýst úr vélinni á þeim hraða og einhver verður fyrir. Í stýrishúsi grisjunarvélarinnar er skothelt gler til að hlífa stjórnanda hennar ef eitthvað kemur fljúgandi.
Kristján Már hefur unnið í Vaglaskógi undanfarnar vikur við grisjun á rauðgreni, lerki, stafafuru og ösp og hafa alls verið grisjaðir 864 rúmmetrar samkvæmt tölvu vélarinnar. Eftir er að mæla upp úr stæðunum og segir Kristján að forvitnilegt verði að sjá hversu vel mælingunum ber saman. Yfirleitt séu mælingar þessara véla nákvæmar. Kristjáni barst liðsauki í vor þar sem var Óskar Einarsson sem nú stundar verknám í vélhöggi í Finnlandi.Þetta er eins og hálfs árs nám og Óskar á hálft ár eftir af því. Þeir hafa unnið á tólf tíma vöktum undanfarnar vikur þannig að vélin hefur verið nýtt til fullnustu í Vaglaskógi. Að sögn Kristjáns hefur verkið gengið vel og gaman að vinna þegar skógurinn er svona fallegur eins og hann er í sumar.
Hreinsað á snjóflóðasvæði
Eitt af verkefnum grisjunarvélarinnar undanfarna daga var að hreinsa upp trjávið á snjóflóðasvæði í Þórðarstaðaskógi þar sem snjóflóð féll á 50 ára gamlan stafafurureit í vetur. Kristján segir að hreinsunin hafi gengið vel og stór hluti af viðnum nýtist til kurlunar en einnig hafi fallið til þarna nokkuð af nýtilegum við til flettingar enda margir bolirnir sverir og myndarlegir. Sum trén voru reyndar of brotin og sprungin til að hægt væri að fletta úr þeim borðvið en önnur höfðu fallið í heilu lagi á hliðina og bolirnir óskemmdir.Auka þarf nýtingarhlutfallið
Nokkur reynsla er nú komin á notkun grisjunarvélarinnar og segir Kristján að verið sé að athuga hvernig ná megi betra nýtingarhlutfalli út úr viðnum. Hingað til hafa bolirnir verið sagaðir í staðlaðar lengdir, yfirleitt þriggja metra búta, en Kristján segir að því fylgi ákveðnir ókostir. Talsvert verði eftir af viði í skóginum sem ekki nýtist í þessar lengdir og sárt að skilja eftir svera búta eingöngu til þess að ná upp staðlaðri lengd. Því sé nú til athugunar í samráði við Skógrækt ríkisins hvort ekki megi saga bolina niður í fleiri lengdir en vélin getur sagað allt frá 2,80 og upp í 4 metra boli. Þá verði að finna út úr því hvernig bolunum verður raðað á timburflutningabílana en Kristján segir ekki skynsamlegt að láta þann þátt stýra því hvernig timbrið sé sagað niður. Slíkt komi niður á nýtingarhlutfallinu.

Annað sem Kristján segir bitna á nýtingu viðarins sé hversu mikil vatnsupptaka sé nú í trjánum. Trén eru full af vatni og þá losnar börkurinn auðveldlega af þeim í átökunum við grisjunarvélina. Börkurinn liggur þá eftir í skóginum og nýtist ekki við kurlun viðarins til Elkem á Grundartanga. Grisjun er nú lokið í Vaglaskógi og næst liggur leiðin í Skorradal. Fyrst þarf þó að yfirfara vélina og hvíla sig. Kristján gerir ráð fyrir að byrja í Skorradal um miðjan ágúst. Þá verði vatnsmagnið í trjánum væntanlega farið að minnka og orðið betra að ná bolunum heilum og óskemmdum.Myndir og texti: Pétur Halldórsson
banner3