Fréttir

18.07.2014

Skógrækt í skýrslu starfshóps um landnotkun

Í könnun sem gerð var meðal sveitarfélaga, hagsmunaaðila og stofnana kemur fram hjá svarendum að togstreita sé algeng milli skógræktarmanna og búfjáreigenda í dreifbýli þar sem lausaganga búfjár er heimil. Þetta er meðal þess sem finna má í allgóðu yfirliti um skógrækt í áfangaskýrslu starfshóps um undirbúning skipulags landnotkunar í dreifbýli sem skilað hefur verið til umhverfis- og auðlindaráðherra. Í skýrslunni eru dregin fram atriði sem huga þarf að í tengslum við landnotkun í landsskipulagsstefnu.

Starfshópinn skipa Björn Helgi Barkarson, Drífa Kristjánsdóttir, Einar Jónsson, Níels Árni Lund og Steinunn Fjóla Sigurðardóttir. Helstu niðurstöður skýrsluhöfunda um skógræktarmál eru tíundaðar í inngangi skýrslunnar á þessa leið:

Á næstu árum verður vaxandi þörf fyrir grisjun þeirra skóga sem gróðursettir hafa verið síðustu áratugi. Í dag er markaður fyrir slíkan við. Huga þarf að því að allir innviðir séu til staðar til að þessar aðgerðir gangi eftir. Sum sveitarfélög gætu þurft að taka þetta sérstaklega til umfjöllunar, t.d. í tengslum við samgöngur.

Meiri eftirspurn eftir landi til fjölbreyttra nota gerir meiri kröfu um samþættingu sjónarmiða í skipulagsáætlunum. Þetta gildir um skógrækt ekki síður en aðra málaflokka þar sem skógrækt hefur áhrif á sitt nánasta umhverfi, t.d. hvað varðar landslag, menningarminjar, útsýni og vistkerfi.

Stefna ríkisins varðandi ríkisstyrkta skógrækt þarf að vera samþætt stefnu varðandi flokkun og varðveislu á landbúnaðarlandi . Þetta má m.a. gera með því að opinberum framlögum til skógræktar sé ekki varið til þess að rækta skóg á túnum eða akurlendi sem eru í notkun og að ekki verði ræktaður skógur í landi sem flokkast sérstaklega til akuryrkju.

Skilyrði til timburskógræktar eru mjög misjöfn á landinu og æskilegt er að fjallað sé um hvort allir landeigendur eigi að hafa sama aðgengi að opinberum stuðningi við skógrækt eða hvort forgangsraða eigi þeim eftir skógræktarskilyrðum. Einnig þyrfti að fjalla um hvort styðja eigi sérstaklega við skógrækt með önnur markmið en timburframleiðslu eins og t.d. endurheimt birkiskóga. Landshluta- og/eða landsáætlanir í skógrækt eru liður í slíkri stefnumótun.

Aukning trjágróðurs víða um land, bæði vegna skógræktar og ræktunar í frístundabyggðum, felur í sér nýjar áskoranir fyrir stjórnvöld hvað varðar gróðurelda.

Huga þarf sérstaklega að brunavörnum í skipulagi, að flóttaleiðir séu til staðar, að gott aðgengi sé fyrir slökkvi- og sjúkrabifreiðar og að vatn sé tryggt til slökkvistarfs.

Kaflinn um skógrækt

Í sjöunda kafla skýrslunnar er fjallað sérstaklega um skógrækt og byggt á niðurstöðum könnunar sem gerð var í aðdraganda skýrsluskrifanna meðal fulltrúa „allra sveitarfélaga á landinu, ýmissa hagsmunaaðila sem koma að landnotkun í dreifbýli og stofnana sem vinna að áætlanagerð og/eða stefnumótun fyrir landnotkun í dreifbýli“, eins og segir orðrétt í skýrslunni. Einnig er það sem skrifað er um skógrækt byggt á gögnum frá Skógrækt ríkisins, landshlutaverkefnum í skógrækt og Skógræktarfélagi Íslands. Tekið er fram að fjalla hefði mátt um skógrækt í kafla um landbúnað en þar sem skógræktar- og landgræðslusvæði eru sérstakir landnotkunarflokkar samkvæmt skipulagsreglugerð hafi verið talið við hæfi að fjalla um þá í sérstökum köflum.

Fram kemur í skýrslunni að dregið hafi úr nýskógrækt allra síðustu ár vegna minnkandi fjárveitinga til landshlutaverkefna en nýskógrækt hafi samt sem áður stóraukist með þessum verkefnum frá því sem var áður. Hlutfall gróðursettra plantna á vegum landshlutaverkefna í skógrækt hafi verið um 70% af heildarfjölda þeirra plantna sem gróðursettar voru árið 2012. Línuritið hér er úr skýrslunni og sýnir þróunina frá því um miðja síðustu öld.

Athyglisvert er að skoða Íslandskort sem birt er í skýrslunni og sýnir ræktaða skóga á Íslandi. Þar má sjá hvernig ræktaðir skógar dreifast um landið, hvar þá er helst að finna og fá hugmynd um stærð þeirra. Rétt er að nefna að þarna eru meðtaldir allir ræktaðir birkiskógar, landgræðsluskógar og skógar sem heyra undir Hekluskógaverkefnið, ekki eingöngu barrviðar- eða asparskógar.

Skýrsluhöfundar tala um að ekki liggi fyrir heildstæðar áætlanir um skógrækt fyrir allt landið og sömuleiðis að ekki liggi fyrir landshlutaáætlanir til 40 ára um hvert landshlutaverkefni fyrir sig sem þó sé kveðið á um í lögum um þessi verkefni (nr 85/2006). Birt er í skýrslunni súlurit sem sýnir viðarsölu Skógræktar ríkisins 2002-2013.

Niðurstöður könnunar

Því næst eru tíundaðar niðurstöður áðurnefndar könnunar þar sem spurt var út í ýmsa þætti sem skýrslan fjallar um, meðal annars skógrækt. Fram komi í svörum fólks að togstreita sé algeng milli skógræktarmanna og búfjáreigenda í dreifbýli þar sem lausaganga búfjár er heimil. Þessi togstreita kristallist meðal annars í því að skógræktarbændur þurfi að girða af skógræktarsvæði sín til að koma í veg fyrir ágang búfjár í annarra eigu. Lausaganga búfjár krefjist þess að girt sé utan um skógrækt. Sú kvöð sé íþyngjandi og krefjist meiri útgjalda fyrir skógræktendur. Enn fremur segir:

Bent er á að lausaganga búfjár geti einnig hindrað útbreiðslu náttúrulegra skóga eins og birkiskóga þó svo að einnig séu dæmi um að birkiskógar breiði úr sér þrátt fyrir beit. Beitarálag sé þá mjög hóflegt. Ræktun innlendra trjátegunda er nefnd sem ein leið til að endurheimta vistkerfi sem víða séu horfin.

Svarendur í könnuninni telja tækifæri skógræktar á landsvísu felast m.a. í margskonar skógrækt sem geti stutt við annan landbúnað eins og mjólkurframleiðslu og kornrækt. Dæmi um það séu skjólbelti sem geti gert kornrækt mun öruggari. Eins geti ræktun trjálunda verið áhugaverð fyrir búfjárræktendur. Bent er á að nytjaskógrækt á stærri samfelldum svæðum eins og á samliggjandi jörðum sé hagkvæmari og ætti e.t.v. að leggja frekari áherslu á slíkt í skipulagi sveitarfélaga og stefnumörkun ríkisins.

Einnig er nefnt að mikið sé til af landi sem henti ágætlega til skógræktar og ekki til annarra nota eins og fjallshlíðar og rýr úthagi. Stefni menn á timburskógrækt þurfi að íhuga hvort fýsilegt sé að rækta í mjög bröttu landi. Slíkt getur gert alla umhirðu og nytjar mun erfiðari og óhagkvæmari.

Annað sem fram kemur í könnuninni er að skógar séu vinsælir til útivistar og geti þannig stutt við lýðheilsu. Þetta eigi ekki síst við í nágrenni þéttbýlis þar sem skógrækt geti aukið við útivistarmöguleika. Fram kemur að rekstrareiningar í skógrækt séu yfirleitt smáar og það geti staðið í vegi fyrir ákveðinni framþróun í úrvinnslu.

Varðandi ráðstöfun lands undir skógrækt er bent á að skógrækt sé afturkræf aðgerð og valkostur til að varðveita og auka gæði lands. Hins vegar sé mikið rætt um óafturkræfni skógræktar og stöðugt verið að setja meira íþyngjandi ákvæði varðandi skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga.

Önnur stefnumörkun

Að síðustu er í kafla skýrslunnar um skógrækt fjallað um aðra stefnumörkun, niðurstöður og tillögur starfshópa á vegum stjórnvalda. Minnst er á stefnu um skógrækt sem „aðilar innan skógræktargeirans“ hafi unnið og gefin hafi verið út 2013. Þar sé leiðarljósið að byggð sé upp og varðveitt skógarauðlind „sem þjóni fjölþættum hagrænum, félagslegum og umhverfistengdum markmiðum í þágu aukinna lífsgæða og almennrar velferðar“. Tíundaðar eru tillögur sem Skógrækt ríkisins og Landgræðslan settu fram í sameiningu um hvernig best væri að ná markmiðum um aukna útbreiðslu birkiskóga og birtust í Hvítbjörk árið 2012. Af þeim tillögum eru nefnd þessi dæmi:

Stofna til starfshóps á vegum umhverfisráðuneytisins sem leita á leiða til að koma á betri beitarstýringu og meiri ábyrgð búfjáreigenda á sínu fé.

Aukin framlög til Hekluskóga og sambærilegra verkefna.

Stuðningur við Landgræðsluskóga.

Kanna hvernig hægt sé að bjóða upp á framlög sérstaklega til friðunar og endurheimtar birkiskóga á bújörðum.

Einnig eru tínd til dæmi um niðurstöður nefndar sem skipuð var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og vann að langtímastefnu fyrir íslenska nytjaskógrækt. Niðurstöður sem snertu með beinum hætti landnotkun í dreifbýli séu m.a. þessar:

Að skógrækt gegnir lykilhlutverki í aukinni bindingu kolefnis hérlendis og vegna skógleysis hefur Ísland hlutfallslega meiri möguleika til aukinnar bindingar með nýskógrækt en aðrar þjóðir.

Að landshlutaverkefnin fylgi stefnu „Skógrækt í sátt við umhverfið“.

Að framtíðarárangur skógræktar hérlendis byggist að stórum hluta á því að faglega sé staðið að málum sem varða skipulagningu, gróðursetningu, umhirðu og nýtingu skóga landsins, bæði náttúruskóga og nýskóga.

Að hver sá aðili sem hyggst stunda skógrækt og fái til þess opinbera styrki skuli sækja viðurkennd námskeið þar að lútandi.

Að þrátt fyrir að markmiðum um ræktun skóga á vegum landshlutaverkefnanna á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis neðan 400 m yfir sjávarmáli verði ekki náð á 40 árum eins og stefnt var að, þá verði þessu markmiði haldið.

Að efla þurfi rannsóknir á gæðum lands til skógræktar.

Að opinberum framlögum til skógræktar sé ekki varið til þess að rækta skóg á túnum eða akurlendi sem eru í notkun og að ekki verði ræktaður skógur í landi sem flokkast sérstaklega til akuryrkju.

Að skógrækt eigi að hafa sama vægi og önnur landnotkun og skuli því ekki þrengja möguleika til skógræktar með íþyngjandi ákvæðum í aðalskipulagi, umfram aðra landnotkun.
banner4