Fréttir

18.07.2014

Staða og þróun viðarsölu

Sala á viðarkurli meira en tífaldast á áratug

Fjallað er um stöðu og þróun viðarsölu Skógræktar ríkisins í nýtútkomnu Ársriti Skógræktarinnar. Fram kemur m.a. að árið 2013 voru seldir tæplega 3.500 af viðarkurli en um miðjan síðasta áratug var salan að jafnaði kringum 250 rúmmetrar á ári. Salan hefur því meira en tífaldast á áratug.

Greinina skrifar Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna, og byrjar á dálitlu sögulegu yfirliti þar sem fram kemur að viðarsala hafi lengst af verið mjög lítill hluti af tekjum Skógræktar ríkisins. Framan af var aðallega seldur eldiviður en eftir því sem rafmagn var leitt um sveitir landsins dró úr þeirri sölu. Í staðinn kom sala á arinviði til fólks sem kom sér upp örnum eða öðrum eldstæðum heima eða í sumarbústöðum. Þröstur nefnir bolvið sem seldur hefur verið frá Skógrækt ríkisins frá upphafi, framan af birki í girðingarstaura og til smíða en á síðari árum líka lerkibolir í fiskihjalla og sem smíðaefni. Sala á flettum borðviði hafi verið árviss frá 1994 en eingöngu selt eftir pöntunum. Enn séu áratugir í að magn borðviðar úr íslenskum skógum verði umtalsvert.

Mest af þeim viði sem seldur er úr íslenskum skógum er kurlviður og frá 1983 hefur kurl verið selt til reykingar á kjöti og fiski og til að dreifa á göngustíga. Salan tók kipp árið 2009 með tilkomu kyndistöðvar Skógarorku á Hallormsstað og þá hóf líka fyrirtæki í Mosfellsbæ að framleiða hefilspæni til að bera undir skepnur í gripahúsum. Í kjölfarið var gerður samningur við járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga um sölu á kurlunarviði sem nýttur er sem kolefnisgjafi. Þetta var tilraunaverkfni fyrstu árin en árið 2013 var fyrsta heila ár nýs sölusamnings við Elkem og þá nam samanlögð kurlsalan hartnær 3.500 rúmmetrum.

Fram kemur í máli Þrastar að næstu tvo til þrjá áratugina verði þjóðskógarnir áfram mest áberandi í timburframleiðslu landsins. Skógar skógræktarfélaga muni þó koma meira inn á þeim tíma og í fyrra hafi skógarbændur selt í fyrsta skipti umtalsvert magn timburs (um 200 m3) sem séu nokkur tímamót. Eftir þrjátíu ár verði timbursala frá bújörðum orðin meiri en frá Skógrækt ríkisins og skógræktarfélögum.

Í lok greinar sinnar ræðir Þröstur Eysteinsson um svokallaða útvegunarkeðju timburs frá skógi til neytenda og að hún sé í þróun hérlendis. Enginn sérfræðingur í þeim efnum sé til í landinu en það sé einungis tímaspursmál hvenær Íslendingar eignist sinn fyrsta sérfræðing á þessu sviði.

Sjá nánar á bls. 34-38: 
banner1