Fréttir

17.07.2014

Þjóðgarðsvörður vill stöðva skógrækt í nokkur ár

Umræða um skógræktarmál í Sjónmáli á Rás 1 nú í vikunni

Í þættinum Sjónmáli á Rás 1 hefur undanfarna daga verið fjallað um breytt vaxtarskilyrði trjágróðurs á Íslandi. Á mánudag kom Björn Traustason, landfræðingur hjá Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá, í þáttinn og sagði frá þeim áhrifum sem hlýnandi lotftslag hefur í þessum efnum og tilefnið var greinin sem birtist í nýútkomnu Ársriti Skógræktar ríkisins, Geta tré vaxið á Sprengisandi? Björn og meðhöfundar hans að greininni, Bjarki Þór Kjartansson og Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingar hjá Skógræktinni, rekja hvernig þróun gróðurfars gæti orðið á landinu með þeirri hlýnun sem spáð er að verði á næstu áratugum og öldum. Landfræðileg greining á skógarmörkum sýnir að fræðileg gróðurmörk þurfa ekki að hækka mjög mikið til þess að möguleg útbreiðslusvæði trjágróðurs stækki stórlega á landinu. 

Á þriðjudag var svo rætt við Aðalstein Sigurgeirsson, skógfræðing og forstöðumann Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá, til dæmis um áhrif hlýnunarinnar á ýmsar trjátegundir og meðal annars var rætt um að skilyrði væru að skapast fyrir nýjar tegundir eins og til dæmis eik og beyki að vaxa hérlendis. Með hlýnandi loftslagi sæjust nú þegar talsverðar breytingar á gróðurfari og skógrækt og trjárækt, ekki síst í þéttbýli þar sem þróunin hefur tekið stór stökk undanfarin ár.

Í gær, miðvikudag, kom svo í þáttinn Snorri Baldursson, líffræðingur og þjóðgarðsvörður á Vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Tilefni viðtalsins við hann var meðal annars grein sem hann skrifaði í vefritið Kjarnann í síðustu viku. Snorri túlkaði orð Arnórs Snorrasonar, skógfræðings á Mógilsá, í sjónvarpsviðtali á dögunum á þá leið að Arnór teldi skógrækt vera nánast einu lausnina sem Íslendingum byðist til að kljást við kolefnisvandann. Snorri beindi spjótum sínum mjög að nytjaskógrækt í landinu sem hann taldi vera tilviljanakennda og skógræktargeirinn væri einráður um hvernig hún væri stunduð. Hann taldi rétt að hætta alveg nýskógrækt í nokkur ár meðan þjóðin hugsaði sinn gang og ákvæði hvernig hún vildi að ásýnd landsins væri, hvernig staðið væri að skógrækt, hvaða tegundir notaðar o.s.frv. Nú er að sjá hvernig fulltrúum þeirrar ungu og efnilegu atvinnugreinar sem skógrækt og skógarnytjar á Íslandi líkar sú mynd sem þarna var dregin upp.

Hlusta má á umrædd viðtöl hér:
banner2