Fréttir

10.07.2014

Segið frá skógfræðirannsóknum ykkar!

Heimsráðstefna IUFRO, alþjóðlega skógrannsóknaráðsins, IUFRO2014 verður haldin 5.-11. október í haust í bandarísku borginni Salt Lake City. Í aðdraganda ráðstefnunnar ákvað ráðið að búa til vettvang fyrir skógvísindafólk til að koma verkefnum sínum og rannsóknum á framfæri.

Til að hvetja fólk til þátttöku er efnt til eins konar bloggsamkeppni þar sem 500 Bandaríkjadollarar eru í vinning fyrir besta bloggið. „Við vitum að um allan heim er unnið að mjög forvitnilegum verkefnum en margt af því fer fram hjá flestum okkar,“ segir á vefsíðu IUFRO þar sem samkeppnin er kynnt. Hér sé komið tækifæri fyrir fólk að vekja athygli á rannsóknum sínum og sýna fram á mikilvægi þeirra fyrir skógræktarfólki um allan heim.

Hér er það sem IUFRO kallar eftir:

 • Skrifið bloggtexta sem ekki er lengri en 750 orð og lýsið rannsóknum ykkar, nýlegum frumkvöðlaverkefnum eða öðrum verkefnum og tengingu þeirra við þema IUFRO2014-ráðstefnunnar sem er viðgangur skóga viðgangur fólks – hlutverk rannsókna (Sustaining Forests, Sustaining People – The Role of Research).
 • Skógar og tré veita fólki margvísleg umhverfisleg, efnahagsleg, félagsleg og menningarleg gæði, bæði í sveit og borg um allan heiminn. Hugið að þessum þáttum í lýsingunni ekki síður en að mikilvægi verkefna ykkar.
 • Finnið góða mynd og látið fylgja.
 • Sendið textann og myndina á netfangið blog@iufro.org.

Ítarlegri upplýsingar má fá á síðunni How to Enter and Win.

Hér er það sem þið fáið frá IUFRO í staðinn:

 • Bloggtextar sem sendir verða inn verða gefnir út á Twitter-síðunni #IUFRO2014 og jafnvel víðar á vefmiðlum.
 • IUFRO dreifir textunum vítt og breitt á sínu stóra samskiptaneti svo boðskapurinn komi fyrir sjónir fólks um allan heim.
 • Og textar allra þátttakenda verða settir í pottinn í samkeppninni #IUFRO2014 Blog Competition.

Keppni?

 • Hver einasti bloggtexti fer sjálfkrafa í keppni á vefnum. Fólk sem skoðar efnið á vefnum getur valið sér texta og greitt atkvæði. Hvort viðkomandi texti fær atkvæði fer að verulegu leyti eftir því um HVAÐ skrifað er og HVERNIG efnið er fram sett.
 • Verið skapandi, skrifið grípandi texta og áhugaverðan, látið lesandann sjá að þið eruð brennandi í andanum og áhugasöm um málefnið. Setjið fram vandamál eða úrlausnarefni, spyrjið spurninga og sýnið þekkingu ykkar. IUFRO vill fá texta sem útbreiða boðskapinn um IUFRO2014 og þær rannsóknir sem þar verða kynntar til eins breiðs hóps fólks um allan heim og mögulegt er. Sigurvegararnir í bloggkepni #IUFRO2014 verða útnefndir á heimsráðstefnunni í haust.
 • Höfundur bloggtextans sem fær flest atkvæði hlýtur að launum 500 Bandaríkjadollara. Höfundar sem lenda í öðru og þriðja sæti fá viðurkenningarskjal og áritað eintak af nýrri bók, Forests and Globalization: Challenges and Opportunities for Sustainable Development að andvirði 145 dollara.

Frekari spurningar? Hér má lesa svör við algengum spurningum.

Hafðu þetta spennandi!

 • Munið: Óskað er eftir bloggtextum. Ekki er óskað eftir útdráttum eða löngum ritgerðum.
 • Leitað er að sögum sem leiftra af brennandi áhuga og smitandi eldmóði og lýsa árangri eða uppgötvunum sem náðst hafa og möguleikum sem felast í frekari rannsóknum í skógvísindum.
 • Af því að textarnir koma fyrir augu fjölmargs og ólíks fólks á vefnum verða þeir ekki einungis dæmdir eftir innihaldi eða efni heldur ekki síst af því HVERNIG efnið ser sett fram.  Hér eru einfaldar ábendingar á ensku um hvernig skrifa má góðan bloggtexta.

Nokkur hagnýt atriði og tæknileg:

 • Textinn má ekki vera lengri en 750 orð. Hann má vera á ensku, spænsku eða frönsku.
 • Þegar textinn hefur verið settur á netið er ekki hægt að breyta honum eða lagfæra.
 • Textanum verður að skila á textaskrá með endingunni .doc eða .docx.
 • Skráin má eingöngu innihalda texta, ekki myndir eða skipanir með leturbreytingum eða öðru sem snertir útlit textans.
 • Myndin sem fylgir skal send í viðhengi með tölvupósti sem sjálfstæð skrá. Hún á að vera í viðunandi gæðum, helst 600 punktar á breidd (600 px).
 • Myndinni skal fylgja yfirskrift sem skráð er í textaskjalinu.
 • Upplýsingar um höfundarrétt myndarinnar skal fylgja einnig. Sendið ekki myndir sem lúta höfundarrétti nema þið hafið fengið leyfi til að nota þær hjá rétthafa.
 • Ef ómögulegt reynist að finna viðeigandi mynd verður notuð hlutlaus mynd úr safni IUFRO.
 • Æskilegt er að textanum fylgi hlekkir sem vísa á nánara efni eða upplýsingar um umfjöllunarefnið.
 • Í bloggtextanum skal koma fram nafn höfundar, starfsheiti, tölvupóstfang, heimilisfang, staður og land. (ef við á, einnig nafn fyrirtækis/stofnunar/samtaka og hlutverk höfundar þar).

Ítarlegri upplýsingar um hvernig skila á inn bloggtextum má finna á  leiðbeiningasíðu um skráningu.

Í Laugarvatnsskógi.Og hverju er aftur verið að leita eftir?

IUFRO óskar eftir bloggtextum sem vekja athygli á þema heimsráðstefnunnar í haust, viðgangur skóga viðgangur fólks – hlutverk rannsókna.  Með þessu vilja samtökin undirstrika hversu mikilvægt er að stundaðar séru rannsóknir í skógvísindum um allan heim og hversu mikilvægar þessar rannsóknir séu til að viðhalda skógum og tilveru fólks vítt og breitt um jörðina.

Skilafrestur

Opnað hefur verið fyrir skráningar nú þegar og texta má senda inn fram til 30. september. Munið, að því fyrr sem textum er skilað inn því meiri líkur eru á að þeir hljóti athygli og þeim verði greidd atkvæði.

Skráningar og frekari fyrirspurnir sendist á netfangið blog@iufro.org

Allar skráningar verða staðfestar með svarbréfi í tölvupósti.

Mikilvægt er að kynna sér  skilmála samkeppninnar.Ljósmynd frá Biogradska suma í Svartfjallalandi: Snežana Trifunović
Ljósmynd úr Laugarvatnsskógi: Esther Ösp Gunnarsdóttir
banner1