Fréttir

03.07.2014

Fræðsluefni um skógrækt

Nýr bæklingur Landshlutaverkefnanna

Komin er út á vegum Landshlutaverkefna í skógrækt ný og endurbætt útgáfa bæklingsins Fræðsluefni um skógrækt. Bæklingurinn nýtist skógarbændum sem eru að stíga sín fyrstu skref í skógrækt jafnt sem öllum öðrum skógræktendum.

Norðurlandsskógar gáfu út bækling með sama heiti árið 2002 með teikningum Aðalsteins Svans Sigfússonar. Þar var fjallað um trjátegundir, undirbúning lands, um gæði skógarplantna, flutning þeirra og geymslu, gróðursetningu, áburð og áburðargjöf auk kafla um skógrækt og minjar. Í nýja bæklingnum hefur verið bætt við kafla um skógræktaráætlanir. Þar er almennt fjallað um skógræktarskipulag, hvaða reglur gilda, hvernig skógræktaráætlanir eru unnar, hvernig skógurinn er hannaður, tegundir valdar í skóginn og fleira.

Aðalhöfundar texta eldri bæklingsins voru Guðríður Baldvinsdóttir, Valgerður Jónsdóttir og Þór Hjaltalín en endurskoðun hans og viðbætur unnu Bergsveinn Þórsson, Hallur Björgvinsson, Ólöf I. Sigurbjartsdóttir, Rakel J. Jónsdóttir, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Sæmundur Kr. Þorvaldsson. Um nýjar teikningar sá Hlynur Gauti Sigurðsson.

Bæklingurinn verður fáanlegur á skrifstofum Landshlutaverkefnanna og á rafrænu formi og jafnvel víðar.

Teikningar: Hlynur Gauti Sigurðsson
banner4