Fréttir

07.05.2014

Strandfura í Oregon

Hin eiginlega „kræklótta fura“

Fræðiheiti stafafuru, Pinus contorta, merkir „hin kræklótta fura“ og á lýsingin við um furuna sem vex við vesturströnd Kanada og Bandaríkjanna. Það var svo seinna að flokkunarfræðingar áttuðu sig á því að beinvaxin fura sem vex fjær ströndinni væri sömu tegundar og því er sama fræðiheitið nú notað yfir furu sem vex á mjög víðáttumiklu svæði og er afar misjöfn í laginu. Þess vegna rækta t.d. Svíar beinvaxna furu sem þeir kalla kræklu (kontorta).

Sú stafafura sem mest er ræktuð á Íslandi er frá Skagway í Alaska. Hún er oft fremur grófgreinótt og ekki alltaf fullkomlega beinvaxin. Sveitarfélagið Skagway er auk þess við ströndina, að vísu innst í mjög löngum firði og langt frá opnu hafi. Því hafa sumir haldið því fram að Skagway-furan tilheyri þeirri undirtegund stafafuru sem kalla ætti strandfuru (Pinus contorta ssp. contorta) frekar en innlandsfuru-undirtegundinni (Pinus contorta ssp. latifolia) sem er yfirleitt beinvaxnari og fíngreinóttari.

Á strönd Oregon rambaði íslenskt skógræktarfólk hins vegar fram á ekta strandfuru, sem óx þar á víðáttumiklu sandsvæði við opið haf. Fura sú var kræklótt og lágvaxin og allt öðruvísi í langinu en Skagway-furan íslenska. Á nokkrum öðrum stöðum við ströndina sást þessi fura við aðeins betri jarðvegsskilyrði, þar sem hún var stærri en ekki síður kræklótt. Ljóst er að furan frá Skagway er mun betur vaxin en hin eiginlega strandfura.

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson


banner5