Fréttir

06.05.2014

Hvetjandi myndband

Skógfræðinemar í Alnarp fá þjálfun í kynningarmálum

Nemendur í skógfræði á meistarastigi við sænska landbúnaðarháskólann SLU í Alnarp læra um kynningar- og markaðsmál í námi sínu og hafa meðal annars tekið fyrir evrópsku skógarvikuna og spurt sig hvernig hana megi kynna betur. Þau gerðu m.a. skemmtilegt myndband til að sýna hvað þau telja rétt að leggja áherslu á, gleði og jákvæðni en líka að höfða til fólks frá mörgum löndum. Þau leggja til meistararitgerðasamkeppni skógfræðinema og að samfélagsmiðlar verði nýttir betur við að kynna skógarmál.

Tveir nemendanna, Veronika Engelman frá Svíþjóð og Íslendingurinn Jón Ásgeir Jónsson, kynntu þennan hluta námsins á fundi evrópska samstarfsnetsins um kynningarmál í skógum, FCN, sem haldinn var í Berlín í apríl. Í verkefni sem nemendurnir unnu undir stjórn Danielu Kleinschmit, dósents við SLU, var sérstaklega hugað að evrópsku skógarvikunni. Fyrst var spurt hversu margir í nemendahópnum könnuðust við þennan viðburð og í ljós kom að einungis einn stúdentanna vissi að þessi vika væri haldin. Út frá þessu var unnið og spurt hvernig vekja mætti betur athygli ungra skógfræðinga á vikunni.

Hvers vegna höfðu flestir nemendurnir misst af því að evrópska skógarvikan væri til? Var það vegna lélegrar kynningar og hvað gætu nemendurnir lagt af mörkum til þess að efla vitund skógfræðinema um viðburðinn? Niðurstaðan var að virkja þyrfti stúdentana sjálfa. Tvær tillögur voru afrakstur hópavinnu nemendanna.

1. Ritgerðarsamkeppni

Fyrri tillagan var að efnt yrði til meistararitgerðarsamkeppni. Keppa skyldi í þremur flokkum, vistfræðiflokki, samfélagsflokki og efnahagsflokki. Hvert þátttökuland skyldi halda nokkurs konar undankeppni og velja þannig eina ritgerð úr hverjum flokki til að komast áfram í aðalkeppnina. Þrjár sérfræðinganefndir, sem skipuleggjendur evrópsku skógarvikunnar skipuðu, skyldu síðan velja tvær bestu ritgerðirnar í hverjum flokki. Þessi sex meistaraverkefni yrðu síðan kynnt á sérstöku málþingi sem yrði liður í dagskrá evrópsku skógarvikunnar. Ein ritgerðanna yrði valin til sigurs og verðlaunin gætu verið peningar, ellegar bara vegsemdin og kynningin sem í sigrinum fælist. Allar yrðu ritgerðirnar birtar í ráðstefnuriti og mögulegt væri líka að veita sérstök verðlaun sem byggð yrðu á vali almennings.

Bent er á að samkeppni sem þessi myndi vekja athygli á skógarmálum meðan á henni stæði. Slík athygli væri hvetjandi fyrir háskóla að vera með og þetta væri góð leið til að kynna evrópsku skógarvikuna og kveikja áhuga ungs fólks á skógfræði. Keppnina mætti kynna með samfélagsmiðlum, póstlistum og með hjálp háskólakennara, til dæmis með því að gert yrði ráð fyrir keppninni í kennsluáætlun eða námskeiðum. Sömuleiðis mætti virkja stjórnsýsluna til að koma keppninni á framfæri.

Árangurinn af ritgerðarsamkeppninni telja skógfræðinemarnir að yrði margvíslegur. Eftir því sem keppnin festi sig í sessi yrði evrópska skógarvikan þekktari í hugum almennings, þetta sé leið til að kynna betur verk skógfræðinema, tengja megi keppnina rannsóknarstarfi í skógvísindum og með þessu myndu tengsl stúdenta eflast við fagfólk og stofnanir í skógargeiranum. Þetta yrði líka framlag til þess að kynna nýjustu tíðindi af skógfræðirannsóknum og hvað sé að gerast í skógrækt og skógarnytjum.

2. Nýta samfélagsmiðla

Seinni tillaga skógfræðinemanna í Alnarp er að nýta betur samfélagsmiðla til að koma evrópsku skógarvikunni á framfæri við skógfræðinema. Þegar viðburður viðkomandi árs hafi verið þróaður og skipulagður og fjármagnið tryggt megi nota samfélagsmiðla og vefsíðu verkefnisins til að kynna það fyrir ungum skógfræðingum og vekja líka almenna athygli á honum. Hér er markhópurinn með öðrum orðum fyrst og fremst skógfræðinemar um alla Evrópu en hópurinn vill líka höfða til háskólanema í öllum öðrum fræðigreinum og til almennings. Lagt er til að starfandi verði öflugt teymi sem vinni með samfélagsmiðlana, haldið verði úti öflugri vefsíðu, búin til myndbönd til kynningar og ímyndarsköpunar. Aðalatriðið sé að ná athygli fólks fyrst og koma svo skilaboðunum á framfæri.

Til að koma þessu öllu saman til leiðar leggja skógfræðinemarnir meðal annars til að stúdentum sem taka þátt í þessu starfi verði gert kleift að fá starfið metið til eininga í námi sínu. Þau telja rétt að einbeita sér að léttleikanum, til dæmis með því að safna saman og miðla áhugaverðu skógarefni, og koma því á framfæri í formi skemmtunar. Þau leggja fleira til eins og lifandi rökræður um skógarmálefni og ýmislegt fleira. Sjálf bjuggu þau til stutt myndband þar sem léttleikinn er einmitt í fyrirrúmi. Þau leggja áherslu á persónlega tengingu, að notuð séu mörg tungumál til að sem flestum finnist þeir vera með í hópnum, notalegt „fílgúdd“-andrúmsloft, að skilaboðin séu stutt og skýr og alltaf skýr tenging við skóg eða tré, til dæmis í bakgrunni myndskeiða.

Hér má sjá myndband nemendanna.

Á þessu sjáum við að á komandi árum má búast við að nýbakaðir skógfræðingar verði færari en áður að koma skógarboðskapnum á framfæri og betur búnir undir að nota öll þau tæki og verkfæri sem aðgengileg eru til verksins.


Vor í pólskum skógi.
Blómin í skógarbotninum heita bjarnarlaukur, lat. Allium ursinum.
Bjarnarlaukur er villtur ættingi graslauks sem er algengur í Evrópu og Asíu.
Heitið er dregið af því að birnir eru sólgnir í laukana en ursus þýðir björn á latínu.
Mynd ©: Paweł Fabijański
banner1