Fréttir

04.12.2009

Vel heppnuð jólaferð í Þjórsárdal

  • Jólaferð í Þjóðskóginn í Þjórsárdal 2009
    (mynd: Ólafur Oddsson)

Í gær var farin jólaferð í þjóðskóginn í Þjórsárdal. Allir nemendur og allt starfsfólk Þjórsárskóla fóru ásamt mörgum foreldrum og nokkrum systkinum nemenda. Farið var í leik í myrkrinu þar sem nota þurfti vasaljós til að finna stöðvar með endurskinsmerkjum. Svo var farið í samvinnu- og hlaupaleik áður en haldið var í kakó og lummur við skýlið. Eftir það fóru þeir sem vildu jólatré með Jóhannesi, aðstoðarskógarverði Skógræktar ríkisins á Suðurlandi og völdu sér blágreni, stafafuru eða þyn til að taka með heim. Aðrir nemendur fóru í hópum með starfsfólki skólans að sækja efni til að nota á næstu vikum í skólanum í skreytingar, föndur og smíðar. Eftir þá vinnu söfnuðust allir saman í hádegismat og borðaði hver sitt nesti. Sumir nemendur voru fljótir í mat og nýttu tímann á ísnum á ánni þar sem þeir fundu dauðann lax undir ísnum og fór mikil orka í að reyna að nálgast hann. Lokaverkefni dagsins var að finna jólatré fyrir skólann. Áður en það var fellt söfnuðust allir saman í kringum tréð og sungu jólalög. Askasleikir mætti á staðinn og tróð sér inn í hringinn og tók þátt í gleðinni  þar til hann þurfti að fara í önnur verkefni. Þegar hópurinn hafði kvatt Askasleiki, skiptust nemendurm á að saga tréð sem verður reist við skólann. Veðrið lék við gesti skógarins nú sem endranær.

Ferðin var liður í samstarfsverkefni Skógræktar ríkisins á Suðurlandi, verkefnisins Lesið í skóginn á vegum Skógræktar ríkisins og skólans. Markmiðið er að tengja skólastarf og samfélag við þjóðskóginn í Þjórsárdal með margvíslegum hætti.


Jólaferð í Þjóðskóginn í Þjórsárdal 2009

Jólaferð í Þjóðskóginn í Þjórsárdal 2009

Jólaferð í Þjóðskóginn í Þjórsárdal 2009

Jólaferð í Þjóðskóginn í Þjórsárdal 2009

Jólaferð í Þjóðskóginn í Þjórsárdal 2009

Jólaferð í Þjóðskóginn í Þjórsárdal 2009

Jólaferð í Þjóðskóginn í Þjórsárdal 2009


Fleiri myndir má sjá í myndaalbúmi Þjórsárskóla.


Texti: Ingibjörg María Guðmundsdóttir, skólastjóri Þjórsárskóla og Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins.

Myndir: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins.
banner2