Fréttir

12.06.2013

Samkeppni um áningarstaði í þjóðskógunum

  • 12062013-(2)
Miðvikudaginn 5. júní sl. voru kynnt úrslit í samkeppni um hönnun áningarstaða í þjóðskógum Skógræktar ríkisins. Margar áhugaverðar tillögur bárust og var tillaga Arkís valin af dómnefnd keppninnar. Kynning á niðurstöðum fór fram í sal Skógræktarfélags Reykjavíkur að Elliðavatni.

12062013-(1)12062013-(3)Undanfarið ár hefur verið unnið að undirbúningi örsamkeppni um áningarstaði í þjóðskógum Skógræktar ríkisins. Gestum í þjóðskógum hefur fjölgað ár frá ári eftir því sem skógar vaxa og skjól batnar og var því orðin nauðsyn að bæta aðstöðu fyrir skógargesti víða um land. Var undirbúningur keppninnar unninn í samvinnu við Framkvæmdasýslu ríkisins og fékkst myndarlegur styrkur til hönnunarsamkeppni frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á síðasta ári, auk þess að styrkur fékkst nú í vor til smíði áningarstaðar á Laugarvatni. Samkeppnin var skilgreind sem örsamkeppni um hönnun áningarstaðar í þjóðskóginum að Laugarvatni, en næsta ár verða 100 ár liðin frá því skógurinn á Laugarvatni var friðaður fyrir beit. Skyldi áningarstaðurinn verða aðgengilegur öllum, í góðri tengingu við skógarumhverfið, gönguleiðir og leiksvæði. Áttu mannvirki á staðnum að vera að mestu úr íslenskum trjáviði, gerð af hugkvæmni með það í huga að einfalt og hagkvæmt yrði að reisa slíka staði og viðhalda þeim. Margar áhugaverðar byggingar eða skýli voru kynnt til sögunnar, en höfðu sumar þeirra skírskotun til annarrar notkunar en umbeðinnar í keppnislýsingu, að mati dómnefndar.

Fjórar tillögur voru sérstaklega áhugaverðar að mati dómnefndar. Tvær tillögur, auðkenndar 80123 og 53820 í dómnefndaráliti, hlutu viðurkenningu sem „athyglisverð tillaga“. Tillaga nr. 71717 hlaut önnur verðlaun, 400.000 kr. og tillaga nr. 22838 „ Eldaskálinn“ hlaut fyrstu verðlaun, 1 milljón kr. Höfundar þeirrar tillögu eru Arnar Þór Jónsson og Birgir Teitsson, arkitektar hjá Arkís arkitektum ehf. og sóttu þeir hugmynd að formi hússins til langhúsa landnámsmanna. Stefnt er að því að reisa þá byggingu að Laugarvatni á næstu mánuðum.

Skógrækt ríkisins vill þakka keppendum kærlega fyrir margar áhugaverðrar og vandaðar tillögur, sem vonandi munu rísa á næstu árum þó þær hafi ekki hlotið fyrstu verðlaun í keppninni.

Í dag, miðvikudaginn 12. júní, verður haldinn rýnifundur um úrslit samkeppninnar í húsnæði Hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands í Þverholti 11 kl. 17.


Álit dómnefndar og tillögurMyndir og texti: Hreinn Óskarsson
banner3