Fréttir

06.06.2011

Mögulega kynt með kurli í Grímsey

  • Kurl í Vaglaskógi
    (mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Í vikunni sem leið fengu fjórir samstarfsaðilar, þ.e. Skógrækt ríkisins, Norðurlandsskógar, Skógræktarfélag Eyfirðinga og Akureyrarbær, styrk úr Orkusjóði til að kanna hagkvæmni þess að kynda byggðina í Grímsey með viðarkurli.

Þorpið í Grímsey er fjölmennasti þéttbýliskjarni á Íslandi sem þar sem allt húsnæði er kynt með brennslu jarðefnaeldsneytis. Verkefnið felst í að kanna til hlítar möguleika á að nýta norðlenskt grisjunartimbur til að hita upp byggðina í Grímsey í stað olíukyndingar sem þar er nú. Kannaðir verða ýmsir möguleikar, bæði fyrir miðlæga hitaveitu og stök hús, og tengingu nýs búnaðar við olíubrennara sem fyrir eru. Jákvæðar niðurstöður gætu leitt til samdráttar við notkun jarðefnaeldsneytis og að sama skapi aukið notkun vistvæns innlends orkugjafa í þess stað.

Rúnar Ísleifsson, skógræktarráðunautur hjá Skógrækt ríkisins og einn forsvarsmanna verkefnisins segir samstarfsaðila ætla að nýta sumarið til undirbúnings og hefjast svo handa við verkefnið sjálft í haust. „Við ætlum að kanna nokkra kyndingarmöguleika. Verði niðurstaðan hagstæð að þá er ekki ólíklegt að í framtíðinni verði híbýli í Grímsey  kynt með grisjunarvið, viðarpillum eða kurli, sem kæmi af Eyjafjarðarsvæðinu og Fnjóskadalnum“ segir Rúnar. „Ætlunin er að verkefninu verði  lokið í ársbyrjun 2013.“

Á myndinni hér að neðan má sjá ofan í kurlhlöðu kurlkyndistöðvarinnar á Hallormsstað, þeirrar fyrstu sinnar tegundar á Íslandi, sem opnuð var í nóvember 2009. Orku- og hráefnisþörfin í Grímsey og á Hallormsstað er svipuð.


Heimsókn Norðmanna á Hallormsstað, maí 2011Myndir og texti: Esther Ösp Gunnarsdóttir

banner1