Fréttir

15.06.2007

Meðalaldur birkis í Ásbyrgi er 72 ár

Sumarið 2006 hóf Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá rannsóknir á vexti birkis og reynis í Ásbyrgi. Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif veðurfars á vöxt þeirra  með aðferð árhringjagreininga. En sú rannsóknaraðferð gefur upplýsingar um vöxt og viðgang trjágróðurs. Rannsóknin í Ásbyrgi er þáttur í verkefni sem hefur það að markmiði að kortleggja árlegan vöxt trjágróðurs (aðlaga birki) á landinu síðustu 150 árin.

Sumarið 2006 voru tekin borkjarnasýni úr birki og reyni í botni Ásbyrgis og hæð þeirra mæld. Meðalaldur reynitrjánna var 55 ár og meðalhæð 8,7 m. Birki reyndist mun eldra með meðalaldurinn 72 ár og meðalhæð 6,5 m. Hæsta reynitréð í Ásbyrgi mældist 11.5 m og hæsta birkið 8,5 m. Fylgni árhringjabreidda í reynitrjám var hæst fyrir hitafar í júlí og águst en fyrir birki var fylgnin hæst fyrir júní og júlí. Hlýr júní og júlí gefur því góðan vöxt í birkitrjám meðan hitinn í júlí og ágúst gefur góðan vöxt fyrir reynivið. Fyrir tímabilið 1940-2005 var vöxtur mestur í reyni árin 1968 og 1984 en þau ár var sumarhitinn mjög góður í júlí. Vöxturinn í birkinu var bestur árin 1959 og 1984 en einnig var mjög góður vöxtur í birkinu árið 1933 sem var hlýjasta sumarið á Norðurlandi á síðustu öld. Vöxturinn var minnstur í trjánum árin 1964 og 1993 bæði fyrir birkið og reynirinn en þessi sumur voru óvenju köld, til dæmis var meðalhitinn í júní árið 1964 aðeins 5,6 gráður og meðalhitinn í júlí árið 1993, 4,7 gráður. Einnig má geta þess að árið 1938 var mjög lítill vöxtur í birki en það ár var meðalhitinn í júní aðeins 5,1 gráður og  6,8 gráður í júlí.

Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á Mógilsábanner3