Fréttir

11.05.2007

Frá stjórnmálafundi um skógræktarmál, ræða Ómars Ragnarssonar

  • frett_11052007_5

Ómar Ragnarsson, f.h. Íslandshreyfingarinnar.

Ræða flutt á stjórnmálafundi um skógræktarmál, Elliðavatni, 3. maí 2007.

Mínar fyrstu minningar sem hafa síðan mótað alla mína sýn á íslenska náttúru eru frá Kaldárseli frá því ég var 7, 8 og 9 ára gamall í hrauninu þar. Og nú blasir við á þessu svæði bylting skógræktarmanna sem þeir hafa hrundið af stað við Hvaleyrarvatn og við Sléttuhlíð og í Undirhlíðum. Og líka blasir við það sem mér og minni hreyfingu er mjög hugleikið, það er að í upphafi skuli endinn skoða. Og að eftir 100 ár skuli heiður okkar og sómi vera óflekkaður, að við höfum ekki anað af stað, heldur að við höfum farið skipulega af stað. Þetta er lokastig landgræðslu eins og við þekkjum og í nágrenni Kaldársels sá ég mikinn uppblástur árum saman og nú sé ég þessa skógrækt og eitt af því sem blasir við er girðing á ská niður svokallað Sandfell og gróðursvæðið er fyrir innan girðinguna en ekki fyrir utan hana og þetta hentar ekki vel í þetta landslag og þarna sjáum við strax ef þið farið bara í Kaldársel að þarna eru ýmis viðfangsefni sem skógræktarfólk þarf að glíma við, ekki bara að planta skógi sem er náttúrlega það fallegasta og göfugasta starf sem til er, og frænka mín að Hvammi í Langadal kenndi mér þegar ég kom þangað og hafði gríðarleg áhrif á alla mína lífsýn, við skilum landinu betra til afkomenda okkar en við tókum við því.

En þarna undir Undirhlíðunum og undir Sandfellinu er búið að planta stórum barrtrjám og ég hygg að það þurfi að gera það sama og í Noregi. Þar er lögð gríðarleg áhersla á að það sé ekki bara landbúnaður til að framleiða vöru heldur sé þar búseta og skipulag – menningarlandslag – sem eflir ímynd og virðingu þjóðarinnar gagnvart sjálfri sér og einnig að ferðamaðurinn komi og geti upplifað menningu Norðmanna og land þeirra. Og það var dásamleg upplifun einn sunnudagsmorgun að geta farið þarna út í einum firðinum og upplifað sunnudag selstúlkunnar. Og það er vegna þess að landbúnaðurinn þarna - í þeim héruðum sem ákveðið hefur verið að varðveita allt og breyta ekki – þar er lögð upp úr því að fólk geti upplifað umhverfi og tónlist Grieg og bókmenntir Björnstjerne Björnsson og Knut Hamsun. Þetta þurfum við að gera á okkar landi og það þurfa þá að vera búsetustyrkir frekar en framleiðslustyrkir á þeim svæðum sem eru eins og í Noregi; búseta er skylda og það verður að vera ákveðinn búsmali og það bara fyrir ferðamennskuna, innlenda og erlenda, og ímynd landsins og sjálfsheiður.

Þegar maður fer víðar um landið má líka ímynda sér að það þurfi að íhuga í hvaða dölum eigi að vera skógrækt og í hverjum ekki. Eigum við að fylla alla dali Tröllaskagans af skógi eða eigum við að halda einhverjum dölum eftir þar sem er enginn skógur. Þetta þarf að athuga fyrirfram. Það er ákveðið hjallalandslag í landslaginu eins og í Langadal, á Héraði og í Norðurárdal. Spurningin er: eigum við að planta skógi þannig að hjallarnir eða hamrabeltin hverfi? Við sjáum á því sem á að fara að gera fram til 2040, að við höfum alveg efni á því að skipuleggja þetta fyrirfram, þannig að útlit landsins og ímynd verði nákvæmlega eins góð og hún geti frekast orðið.

Þegar ég horfi yfir ykkur minnist ég þess að ég gerði einu sinni lag og texta sem ég ætla að færa ykkur. Það verður mitt kosningaloforð; þið fáið það eftir kosningar. Og textinn byrjar svona:

Á grænni grein við gróna hlein

syngja allir fuglarnir

þegar flogin öld er ein.

Og svo framvegis. Og það er til sérstakt lag um þetta. En ég er að tala um Noreg af því þar sér maður hvað þeir eru framsýnir og við erum að gera þetta fyrir framtíðina. Við erum að hugsa langt fram í tímann. Við erum að hugsa um afkomendur okkar. Við hugsum um það að endurheimta votlendi. Við ætlum okkur ekki að fara að eins skipulagslaust og þá var gert, að hver skurður var þjóðþrifaverk þar til allt í einu 97% af öllu votlendi á Suðurlandi var búið að ræsa fram. Og menn sögðu eftirá: “Æ-æ, við hefðum átt að gera þetta öðruvísi, við hefðum átt að taka eina og eina mýri eins og Starmýri og Safamýri, og halda þessum mýrum ósnortnum.

Það er svo sérkennilegt við íslenska skógrækt að það er svona að íslensk hugsun, hún nær ekki til útlanda. Þegar Seinfeld kom til Íslands þá kom Jón Ársæll og ætlaði að bauna á hann mjög góðum brandara og segir við hann: „Mr Seinfeld, in an Icelandic wood, what do you do if the visibility is poor?“. Seinfeld skildi ekki spurninguna og þá sagði Jón Ársæll: „You stand up!“. Og Seinfeld skildi það heldur ekki því í hans augum var skógur eitthvað ógurlega hátt.

Skógur hefur gríðarlega mikil áhrif á veðurfar. Þegar við bræðurnir, ég og Jón, vorum að keppa í heimsmeistarakeppni í rallí í Svíþjóð og keyrðum yfir 500 m háa fjallvegi og við skildum ekki í því að heima væri brjálað veður og bílar að fjúka í Kópavoginum og það sukku skip á Skagerak og Kattegat, en þegar við ókum í skóginum var enginn skafrenningur vegna þess að skýin æddu yfir skóginum og það var logn á vegunum. Þá áttuðu menn sig á því hvað skógurinn er gríðarlega mikils virði og hvað þið eruð að vinna mikið starf og ...

Í stefnuskrá okkar flokks er lögð mjög þung áhersla á uppgræðslu, að stöðva jarðvegseyðinguna og snúa þessu við og að samtvinna bæði landgræðslu og landbúnað.. og skógrækt.  Að skipuleggja betur beit í þeim sveitum þar sem eru góðir afréttir, að þar verði jafnvel leyfð meiri beit. Að annarstaðar verði bændur styrktir til að breyta búskaparháttum, verða ferðaþjónustubændur eða landgræðslubændur.  Það minnir mig á að í ævisögu Steingríms Hermannssonar segir hann: „Þegar ég kom í ráðuneytið sem landbúnaðarráðherra og fór að skoða þetta, þá sá ég að sumir bændur voru með góða afrétti og aðrir með slæma, svo ég fór að orða þetta hvort það væri ekki hægt að gera eitthvað í þessu og láta jafna þetta út. Og það var bara eins og við manninn mælt, allir landsbyggðarþingmennirnir urðu brjálaðir og Bændasamtökin og ég þorði aldrei að minnast á þetta aftur.“

Svo við sjáum að það er ansi mikið verk óunnið í þessum efnum, að horfa á þetta frá nýjum sjónarhóli, frá sjónarhóli 21. aldarinnar. Við verðum líka að átta okkur á því að útlit landsins og ásýnd, hún er margbreytileg og við verðum að átta okkur á því í hverju gildi landsins er fólgið, það er ekki bara fólgið í því að við séum með skóga á réttum stöðum sem auðga líf okkar og bæta kjör, heldur ætla ég að lýsa fyrir ykkur hvert er verðmæti þessa lands, einhvern veginn svona:

 

Allvíða leynast á Fróni þau firn

sem finnast ekki í öðrum löndum:

Einstæðar dyngjur og gígar og gjár

með glampandi eldanna bröndum.

Við vitum ekki enn að við eigum í raun

auðlind í hraunum og söndum,

sléttum og vinjum og auðnum og ám

og afskekktum sæbröttum ströndum.

 

Því Guð okkur gaf

gnægð sinni af

í sérhverri sveit,

sælunnar reit.

 

Ísland er dýrgripur alls mannkynsins,

sem okkur er fengin að láni.

Við eigum að vernda og elska það land

svo enginn það níði né smáni.

 

Og hver er tilfinningin sem við fáum í skógunum og tilfinningin sem viljum að þetta land muni færa okkur, og ótal ferðamönnum sem sækja okkur heim, vegna þess hvernig við höfum varðveitt það, betra til framtíðarinnar en við tókum við því.

Þessi tilfinning er svona, nokkurn veginn:

 

Seytlar í sár

seiðandi mál

fjallanna firrð

friður og kyrrð

íshvelið hátt

heiðloftið blátt

fegurðin ein

eilíf og hrein.

 

Takk.
banner3