Fréttir

11.05.2007

Frá stjórnmálafundi um skógræktarmál, ræða Illuga Gunnarssonar

  • frett_11052007_3
Illugi Gunnarsson, f.h. Sjálfstæðisflokksins.

Ræða flutt á stjórnmálafundi um skógræktarmál, Elliðavatni, 3. maí 2007.

Ráðherrann okkar nefndi hér áðan að hann hefði uppi hugmyndir um ekki-beint-þegnskylduvinnu heldur launaða þegnskylduvinnu í skógrækt, og það er eiginlega synd að geta ekki rætt það við hann á eftir, en þannig er það reyndar í mínu tilviki að ég var einmitt í svona launaðri þegnskylduvinnu sem barn norður á Siglufirði hjá Jóhanni Þorvaldssyni, skógræktarfrömuði og aldamótamanni.  Ég var þar að vinna hjá honum frá því ég var 11 ára og þar til ég varð 13 ára. Ég á eina minningu um þann mann sem ég losna ekkert við, því ég var ekkert sérlega fljótur til sem barn að þroskast og þannig var að ég var einhvers staðar að klippa í kringum einhver tré og Jóhann kom þar að strákur árinu eldri en ég var að tala við einhverjar tvær stelpur sem voru í vinnuhópnum. Og ég man að mér fannst það alveg fáránlegt af hverju hann væri ekki að klippa í kringum trén, og Jóhann gekk að honum og sagði: „Maður gæti haldið, drengur, að þú hefðir meiri áhuga á stelpunum heldur en plöntunum!“  Og ég man að ég hugsaði: „Já þarna fékkstu það, helvítið þitt!“

En ég ætla ekki að gefa mig út fyrir það að vera mikill sérfræðingur í skógrækt og tengdafaðir minn, Einar Oddur Kristjánsson, er mér miklu fremri. Hann heldur því reyndar fram að ég flokki tré í tvennt, annars vegar jólatré og hins vegar önnur tré, sem fellur saman við flokkun mína á fuglum sem er hrafnar og aðrir fuglar. Þannig að ég ætla ekki að þykjast vera meira en ég er í þessum málaflokki. En hitt er það að ég, eins og aðrir, skynja mikilvægi hans. Ég er líka sammála henni Þórunni um það að þetta er ekki í eðli sínu mál sem er flokkspólitískt, það eru ekki pólitísk átök um þetta. Ég held að þetta sé eitt af þessum verkefnum sem er þjóðarverkefni; að endurheimta gróðurþekjuna, að koma í veg fyrir landfokið, að búa okkur til veröld eða heim þar sem okkur líður vel og það er alveg rétt sem kom hér fram áðan, þar sem er fólk, þar eru tré.

Og ég var nú reyndar eitt sinn að ferðast hér með útlendinga um landið og þau sáu þetta merkilega skilti þar sem er bekkur og svo tré, og af því þau höfðu ekki séð eitt einasta tré á allri ferðinni héldu þau að þarna væri loksins komið tréð og bekkur þar sem maður gæti setið á til að horfa á tréð. Og ég auðvitað mótmælti því harðlega og sagði að það væri auðvitað fullt af skógi á Íslandi en að hann væri bara svo lágur að hann sæist ekki. En ég held að það sem mér fannst hvað áhugaverðast hérna og skiptir miklu máli í umræðunni núna sem er þessi spekúlasjón um kolefnisbindinguna. Mér fannst þetta mjög áhugaverður fyrirlestur. Ég hjó eftir því að það kom fram hjá fyrirlesara að hann hefði heyrt það hjá pólitíkusum að þetta væri ekki „endanleg lausn“ (reyndar eiga pólitíkusar alltaf  að vara sig á orðinu „endanleg lausn“: það er hættulegt í pólitík). En það sem ég og kannski fleiri hafa verið að hugsa um að kannski stóra tækifærið með skógrækt og CO2-bindingu, að það tekur dálítinn tíma fyrir hagkerfin að breyta framleiðsluháttum sínum. Og um það snýst einmitt allt þetta mál, að okkur takist að virkja hagkerfið, virkja markaðinn þannig að hann breyti því hvernig hann framleiðir vörur og þjónustu. Það má rekja það alveg aftur í iðnbyltingu, að framleiðsluhættir kapítalismans hafa ekki tekið tillit til tvenns: annarsvegar mengunar og hins vegar að það sé gengið á náttúruna. Þessu tvennu þarf að breyta. Og það gerist með samstarfi stjórnmálamanna, almennings og atvinnulífs. Og breytingin felst í því að við förum úr þessum framleiðsluháttum og í framleiðsluhætti sem menga minna og helst ekki neitt. Og ég hef stundum tekið dæmi. Ég fékk fyrir nokkru gefins bók sem var ekkert öðruvísi en aðrar bækur nema hvað hún var búin til úr plasti. Og af hverju var hún búin til úr plasti? Jú af því að fyrirtækið sem hannaði plastflöskur var í vandræðum með endurvinnslu, þeir bjuggu til plast sem hægt var að prenta á vel, og úr því kom síðan hugmynd um að framleiða bækur. Kosturinn við þetta plast er að það er 100% endurnýtanlegt þannig að það er hægt að búa til alveg óendanlega margar bækur úr þessu, það þarf ekki að fella neitt tré og það þarf ekki að endurvinna neinn pappír. Sama gerist núna og þið sáuð það um daginn þar sem Richard Branson var að tala um það að hann vildi framleiða þotuhreyfla sem menguðu minna en núverandi hreyflar. Við sjáum þetta í bílaiðnaðinum; við sjáum þetta úti um allt.

Og af því fyrirlesari spurði hér áðan: „Hvað ætlið þið stjórnmálamenn að gera til þess að ná þessu niður fyrir árið 2050?“ Svarið er einfaldlega þetta: eina vonin sem við eigum í þessu er að það takist að breyta framleiðsluháttunum, t.d. eins og hjá álverunum, það væri alveg stórkostlegur munur ef þeim tækist að framleiða keramíkskaut í staðinn fyrir kolefnisskaut, það dregur alveg gríðarlega úr menguninni frá álverunum. Það leysir ekki vandamálið með báxítnámurnar o.s.frv., en það myndi minnka CO2-útblásturinn.

Þannig að ég lít svo á að það séu alveg stórkostleg tækifæri, eins og kom hér fram áðan, í því að brúa þetta bil, að hjálpa hagkerfunum að brúa þetta bil, og ég bind miklar vonir við þetta að það fari saman að bæta umhverfið, að bæta líðan fólksins, okkar, og um leið ná þessum árangri. Ég þakka fyrir og hlakka til að taka þátt í umræðunum hér á eftir.
banner4