Fréttir

30.11.2006

Útgáfuhátíð Skógarbókar Grænni skóga 8. desember

frett_30112006_1Föstudaginn 8. desember  kemur skógarbók Grænni skóga út. Af því tilefni mun Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra taka á móti fyrsta eintaki bókarinnar á útgáfuhátíð í húsakynnum Landbúnaðarháskólans á Reykjum í Ölfusi kl. 14:00. Bókin sem verður um 260 blaðsíður og öll litprentuð er hugsuð sem kennslubók og almenn handbók um fjölmarga þætti skógræktar á Íslandi og ætlað að bæta úr brýnni þörf fyrir slíkt námsefni. Landbúnaðarháskóli Íslands gefur bókina út í samvinnu við Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins og landshlutabundnu skógræktarverkefnin. Samhliða útgáfuhátíðinni munu Suðurlandsskógar og verktakafyrirtækið Græni drekinn kynna nýja fjölnot skógarvél, þá fyrstu á Íslandi. Vélin er af tegundinni Menzi Muck og er hönnuð og smíðuð í Sviss með vinnu við óvenjulegar aðstæður í huga. Hún er að grunni hjólagrafa, en getur fellt tré og þar með grisjað skóg með sérhönnuðum grisjunarhaus og gróðursett með gróðursetningarhaus. Kynningin fer fram í hlíðum Reykjafjalls þar sem nokkur tré verða felld. Boðið verður upp á léttar veitingar. Þeir sem hafa áhuga á að kaupa bókina geta pantað hana á skrifstofunni á Reykjum í síma 433-5303 (magnea) eða í gegnum netfangið magnea@lbhi.is. Bókin mun kosta 4.000 krónur. Þá er einnig hægt að panta hana á heimasíðu skólans, www.lbhi.is og hún verður seld í bókabúðum Pennans – Eymundssonar víða um land.

 

Mynd: Ritstjóri Skógarbókar Grænni skóga, Guðmundur Halldórsson  (t.v.) og formaður ritnefndar, Magnús Hlynur Hreiðarsson, verkefnisstjóri Grænni skóga, sem sjá langþráðan draum rætast með útgáfu Skógarbókar Grænni skóga. Bókin hefur verið í vinnslu sl. tvö ár.
banner4