Fréttir

21.11.2006

Umhirðu- og nýtingaráætlun fyrir Vaglaskóg komin út

Út er komin fyrsta umhirðu- og nýtingaráætlun fyrir þjóðskóg.  Áætlunin nær yfir Háls- og Vaglaskóg og Hálsmela í Fnjóskadal.  Skógrækt ríkisins á jörðina Vagli og þann hluta Háls sem var skógi vaxinn um aldamótin 1900, þ.e. gamla Hálsskóg.  Skógræktin hefur umsjón með Hálsmelum samkvæmt samningi við eigandan, Prestsetrasjóð.  Gamli skógurinn og Hálsmelar eru nú innan sömu girðingar og mynda hina landfræðilegu heild sem áætlunin nær yfir.

Áætlunin nær til 10 ára og inniheldur þætti varðandi sögu og fyrri meðferð skógarins, lýsingu á stöðunni núna, stefnu til framtíðar og aðgerðir næstu 10 ár.  Helstu viðfangsefnin eru grisjun og umhirða, vernd, útivist almennings, uppgræðsla og hefðbundnar skógarnytjar.

Áætlunin var að mestu unnin af Rúnari Ísleifssyni, skógræktarráðunaut, en honum til halds og trausts var nefnd skipuð Sigurði Skúlasyni, skógarverði á Norðurlandi, Margréti Guðmundsdóttur, Hallgrími Indriðasyni og Þresti Eysteinssyni, og allt starfsfólk Skógræktar ríkisins.  Þess er vænst að áætlunin verði til hagræðingar og eflingar á starfinu í skóginum og að meðferð skógarins sem lögð er til verði í sátt við samfélagið og umhverfið.  Vaglaskógur eflist sem höfuðskógur Norðurlands. Skoða má texta og nokkur kort úr áætluninni sem pdf. skjal hér.

Nú vinnur starfsfólk Skógræktar ríkisins hörðum höndum að gerð áætlana fyrir fleiri þjóðskóga og er markmiðið að þeir verði allir 59 komnir með áætlun innan fárra ára.
banner4