Fréttir

16.10.2006

Stórt skref stigið í vélvæðingu skógræktar á Íslandi

frett_16102006_1Fyrirtækið Græni Drekinn á Suðurlandi, hefur í samvinnu við Suðurlandsskóga, keypt fjölnota skógarvél, þá fyrstu sinnar tegundar á Íslandi. Vélin sem um ræðir er af tegundinni Menzi Muck og er hönnuð og smíðuð í Sviss, með vinnu við óvenjulegar aðstæður í huga. Vélin er að grunni hjólagrafa, en getur fellt tré og þar með grisjað skóg með sérhönnuðum grisjunarhaus frá Konrad Forested í Austurríki og gróðursett með gróðursetningarhaus frá fyrirtækinu Bräcke í Svíþjóð. Þessi fjölhæfni gerir það fjárhagslega mögulegt að reka slíkt tæki hér á landi. Suðurlandsskógar hafa fest kaup á gróðursetningarhausnum og jafnframt gert samning við verktakafyrirtækið Græna Drekann sem á vélina varðandi leigu og forkaupsrétt á hausnum.

Vélin er útbúin þannig, að hjólin eru fest á arma sem síðan festast undirvagninum. Örmunum getur ekillinn stjórnað og ræður vélin því við að vinna við erfiðustu aðstæður, t.d þar sem er mjög bratt (í allt að 40° halla), við skurðruðninga og fleira. Vélin er auk þess búin stórum og breiðum dekkjum sem gera hana afar hentuga í mýrlendi.

Með gróðursetningarhausnum er hægt að jarðvegsskipta, áburðargefa og úða með skordýraeitri fyrir hverja plöntu. Með sögunarhausnum fellir stjórnandinn tré, afkvistar og sagar í fyrifram ákveðnar lengdir. Vélin er auk þess þeim kostum gædd að geta lyft sagarbúnaðinum frá gripörmunum og nýtist þannig til þess að stafla trjábolunum í stæður.

frett_16102006_2Guðjón Helgi Ólafsson eigandi Græna drekans var á dögunum í Sviss þar sem hann lærði á vélina eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Eftir prófunina var vélin sótthreinsuð og þvínæst sett í gám. Er búist við að vélin komi til landsins á næstu dögum.

Árleg grisjunarþörf í skógum landsins er um 100 ha. Mikill hluti elstu skóganna er í umsjá Skógræktar ríkisins og með núverandi tækni hefur ekki náðst að ljúka nauðsynlegri grisjun nema hluta þeirra. Skógrækt ríkisins fagnar því þessu mikla framtaki og mun á næstu mánuðum vinna að þróunarverkefni í vélgrisjun með Græna drekanum.
banner5