Fréttir

25.09.2006

Gróðurfarssaga og umhverfisbreytinga á Héraði

Rannsóknastöð skógræktar ríkisins á Mógilsá og Héraðsskógar eru þátttakendur í Sænsk – Íslensku rannsóknarverkefni sem nefnist: “Vitnisburður setlaga úr Lagarfljóti um bræðsluvatnssögu Vatnajökuls og umhverfisbreytingar á Héraði”.  Með verkefnastjórn fara Prófessor Ólafur Ingólfsson við Háskóla Íslands og Prófessor Svante Björck við  Háskólinn í Lundi í Svíþjóð.

Aðkoma Skógræktar Ríkisins og Héraðsskóga að verkefninu tengist sögu gróðurfars og umhverfisbreytinga á Héraði, en setlög Lagarfljóts varðveita frjókorn sem greina má til tegunda. Markmiðið er að kortleggja gróðurfarsögu/skógarsögu svæðisins frá því fyrir landnám til dagsins í dag (síðustu 2000 árin). Einnig verða vistfræðilegar breytingar kannaðar í kjölfar landnáms og þróun þeirra fram til okkar daga.

Rannsókn þessi mun einnig fela í sér lestur ritaðra heimilda sem tengjast lýsingum á gróðurfari, veðurfari og hamförum, meðal annars áhrifum Öskjugosins frá 1875 og fleiri eldgosa á gróðurfar og mannlíf Héraðsbúa.

Sýnataka úr setlögum Lagarfljóts fór fram 13-19 september síðastliðinn. Sænsku þátttakendurnir í verkefninu komu til landsins með Norrænu þann 12 september með sýnatökuútbúnað, borfleka og setlagabor (sjá mynd). Staðsetning sýnatökusvæðis var ákvörðuð út frá mælingum á setlagaþykkt og vatnsdýpi. Ákveðið var að bora nyrst í Fljótið milli Freysnes og  Egilsstaða (gamla bæinn) þar sem meðaldýpi er um 38 m og áætluð setlagaþykkt 12-15 m.


Sýnataka gekk vonum framar og náðist upp um 12 m samfeldur kjarni úr setlögunum. Efstu metrar kjarnans sýna reglulega lagskipingu setsins s.k.l. hvarflög (hvarfleir) þar sem skiptast á þykk grófgerð sumarlög og þunn fíngerð vetrarlög (sjá mynd). Lög þessi myndast meðan jökulvatn rennur í Lagarfljót með Jökulsá á Fljótsdal sem á upptök sín undan Eyjabakkajökli. Neðarlega í kjarnanum er síðan sem lagskiptingin hverfi (hvarfleirinn) og við tekur lífrænt vatnaset. Nánar upplýsingar um verkefnið er að finna á: http://www.hi.is/~oi/lagarfljot_project.htm

(Dr. Ólafur Eggertsson, Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá)
banner4