Fréttir

26.06.2006

Aðalfundur landssamtaka skógareigenda og 'Skógardagurinn mikli' á Hallormsstað

„Bændur rækta skóg“ – frétt ríkissjónvarpsins af aðalfundi landssamtaka skógareigenda, föstudaginn 23. júní 2006.

Fréttina má sjá í heild HÉR. Aðalfundur LSE var haldinn í tengslum við „Skógardaginn mikla“, hátíðisdegi skógræktarfólks á Fljótsdalshéraði, sem haldinn var á Hallormsstað á laugardag. Frá þeim degi var sagt í kvöldfréttum ríkissjónvarps á laugardagskvöld og má sjá fréttina HÉR, m.a. af keppni í skógarhöggi (sjá mynd).

Sjö hundruð bændur hér á landi hafa að einhverju eða öllu leyti snúið sér að skógrækt. Margar spennandi skógarafurðir eru í þróun og var það ásamt öðrum málum rætt á aðalfundi Landssamtaka skógareigenda sem haldinn var á Hallormsstað í dag.

Ágúst Ólafsson, fréttamaður:
Sex félög skógarbænda víða um land mynda landssamtök skógareigenda. Ýmist eru þetta bændur sem blandað hafa skógrækt við hefðbundinn búskap eða leggja jarðir sínar eingöngu undir skógrækt. Skógarbændum fer hratt fjölgandi en um 700 bændur eru innan landssamtakanna í dag og þeir rækta skóg í margs konar tilgangi.

Edda Björnsdóttir, formaður Landssamtaka skógareigenda:
Sumir eru gagngert í þessu í timburskógrækt eins og við flest hér á Héraði. Margir eru í skjólbeltarækt og skyldri rækt, svo er það kolefnisbindingin og það er svo margt sem spilar þarna inn í. Ég held að almenningur sé orðinn meðvitaður um hvers lags skjól og gott mannlíf þrífst innan skóga.

Ágúst Ólafsson, fréttamaður:
Í dag er sá viður sem til fellur á jörðum skógarbænda að langmestum hluta smáviður og hefur nýtingin tekið mið af því. En um nokkurt skeið hafa möguleikar á því að hefja annars konar framleiðslu verið skoðaðir, og þar sjá menn fyrir sér afurðir sem ekki hafa talist hefðbundnar til þessa.

Guðmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Héraðs- og Austurlandsskóga:
Menn hafa horft á alþjóðavísu til þess að nýta betur þann við sem er að koma út úr skógunum og er í smáu þvermáli og nýtist ekki vel í borð. Þar hafa verið skoðaðir möguleikarnir á að nýta þetta í samhengi við plast. Það er verið að skoða mjög skemmtilegar lausnir á því að pressa saman viðarkurl og plast og nota í alls konar vörur, svo sem hurðir og margs konar veggklæðningar. Hitt er annað að við höfum verið að skoða spennandi þróunarverkefni. Eitt þeirra er að við erum að skoða möguleikana á því að nota viðarkurl úr lerki til þess að hreinsa olíu og vatn. Þetta eru dæmi um spennandi afurðir skógarins sem ekki geta talist hefðbundnar.
banner4