Fréttir

27.06.2006

Ólífurækt á Englandi möguleg og hagkvæm vegna hlýnunar?

Ólífutré farin að vaxa á Englandi

Mynd: Enski bóndinn og umhverfisráðgjafinn Mark Diacono er sannfærður um að ólífurækt eigi framtíðina fyrir sér á Englandi, vegna hlýnandi loftslags af völdum gróðurhúsaáhrifa.

Mark Diacono hefur komið á fót fyrsta ólífulundi í sögu Bretlandseyja, á tæplega sjö hektara landi sínu á bökkum árinnar Otter, í Devon á Englandi. Frá þessu var sagt í breskum fjölmiðlum í gær. Telur hann allar líkur á að ólífuræktun verði senn arðbær á Englandi, vegna hækkandi hita og lengri vaxtartíma af völdum gróðurhúsaáhrifa.

Ólífurækt er nú bundin við heittempruð svæði jarðar, svo sem Miðjarðarhafslöndin, suðvesturríki Bandaríkjanna og hluta Suður-Ameríku. En Diacono metur það svo að þegar sé orðið nægjanlega hlýtt til þess að ræktun ólífutrjáa sé gerleg á Englandi og að innan fárra áratuga verði hitafar þar orðið hentugt til arðbærrar ólífuræktunar á stærri skala.

Meðalhitinn á Bretlandseyjum hefur aukist um 1°C á undanfarinni öld og hefur vaxtartíminn lengst um mánuð á sama tímabili. Verkefni sem miðar að því að meta áhrif loftslagsbreytinga á Bretlandseyjum (UK Climate Impacts Programme) spáir því að meðalhitinn í suðaustur Englandi muni hækka um 5°C fyrir árið 2080.

Sjá nánar:

First olive grove takes root in sunny Devon (The Telegraph, 27/6 2006)

Britain's first olive grove is a sign of our hotter times (The Independent, 26/6 2006)
banner5