Fréttir

31.05.2006

Hægur vöxtur peninga á frönskum trjám

Peningar vaxa á frönskum trjám, en hægt
(Reuters, Frakklandi, 25. maí 2006)
 
París – Flatarmál lands í Frakklandi sem vaxið er skógi hefur vaxið um þriðjung á hálfri öld, m.a. vegna einkafjárfesta sem sjá sér hag í því að fjármagna skóggræðsluverkefni í því augnamiði að nýta skattfrádrátt af fjárfestingum sínum.

 

Þriðjungur Frakklands er skógi vaxinn, að sögn franska landbúnaðarráðuneytisins, og þekur yfir 16 milljónir hektara, sem er stærra flatarmál en allt það landssvæði sem nýtt er í öðrum greinum landbúnaðar.

Framlegð af fjárfestingum í skóggræðsluverkefnum er á hinn bóginn mun lægri en sú arðsemi sem hægt er að ná með fjárfestingum á almennum hlutabréfamarkaði. Á hinn bóginn njóta fjárfestar skattaívilnana, auk þess sem margir telja verðmæti fólgið í því að eiga land í sveit sem heldur verðgildi sínu og sem hægt er að láta eftirkomendurna njóta.

Sjötíu prósent af frönskum skógum eru í einkaeign. Í Frakklandi er að finna yfir eina milljón skógareigendur, þ.e. landeigendur sem eiga a.m.k. einn hektara af skóglendi. Hin þrjátíu prósent skóglendis eru í ríkiseign.

„Gegn því að hirða um skika af skóglendi, geta eigendur þess noti hagstæðra skattaívilnana,“ tjáði háttsettur yfirmaður hjá stærsta skógrekstrarsjóði Frakka, CDC Foret, fréttamanni Reuters. Hann sagði að margir hefðu kosið að fjárfesta í skógum á síðari hluta áttunda áratugarins, og sáu þar tækifæri til þess að koma fjármunum í örugga höfn á tímum olíukreppunnar. „Þá skynjuðu margir skóga sem skynsamlega fjárfestingu,“ bætti hann við.
 
Franska ríkið og þegnar þess njóta margháttaðs ávinnings af skóginum. Skógarnir binda sem nemur 138 milljónum tonna af koldíoxíð á hverju ári og sjá fyrir 3% af heildarorkuþörf landsins.

Fjárfestingar í skógum urðu enn fýsilegri kostur í kjölfar fellibyls sem gekk yfir Frakkland árið 1999 og felldu fjölda trjáa.

En jafnvel með gróðursetningu hraðvöxnustu trjátegunda, þurfa fjárfestar að bíða lengi eftir ávöxtun á fjárfestingu sinni. Aspartegundir ná skjótustum þroska. „Aspir eru að jafnaði 25-30 ár að ná nýtanlegri stærð og ef viðurinn selst vel, getur ávöxtun á asparskógrækt numið 6%,“ sagði fyrrnefndur stjórnandi og bætti við að til þess að ræktun nái lágmarks-stærðarhagkvæmni verði að rækta skóg á a.m.k. 50 hekturum af samfelldu landi.

SKATTALEG HLUNNINDI FELAST Í SKÓGI

Að sögn franska bankans BNP Paribas geta þeir skattgreiðendur sem fjárfesta í skóggræðslu frá miðju árinu 2001 til ársloka 2010 notið skattfrádráttar sem nemur 25% af fjárfestingarkostnaðinum, allt að 5700 evrum á einstakling eða 11400 evrum á hjón.

„Þessi skattaákvörðun hafði í för með sér auknar nýfjárfestingar í skógrækt og lífgaði við fjárfestingar í þessum geira hagkerfisins,“ bætti stjórnandinn hjá CDC Foret við.

Að sögn landbúnaðarráðuneytisins hefur flatarmál skóglendis einkum aukist á tiltölulega strjálbýlum svæðum svo sem á Bretagne-skaga og í héraðinu Massif Central í mið-Frakklandi, þar sem brottflutningur fólks úr dreifbýli til borga hefur verið mestur. Það líkir fjárfestingum í skógarjörðum við fjárfestingar í byggingum og landareignum, þar sem eigandinn á fjárfestinguna í mörg ár og arfleiðir afkomendur sína að eigninni. Þrír fjórðu hlutar allra landeigenda eru komnir yfir fimmtugt og einn af hverjum þremur er kominn á áttræðisaldur, bætti ráðuneytið við.

Og flest trjánna ná mun hærri aldri en fjárfestarnir. „Fjármagn það sem varið er til fjárfestinga í skógrækt verður að vera afar þolinmótt, þegar haft er í huga að það tekur eikartré 150 ár að ná fullum þroska,“ bætti stjórnandinn hjá CDC Foret við.

Höf.: Muriel Boselli
Þýðing: Aðalsteinn Sigurgeirsson

REUTERS NEWS SERVICE
banner5