Fréttir

05.05.2006

Grænsíða: landupplýsingakerfi fyrir skógrækt senn á veraldarvefinn

Nú sér fyrir endann á smíði Grænsíðu eða Skógarbókar, landfræðilegs upplýsingakerfis fyrir skógrækt. Héraðsskógar og Tölvusmiðjan hafa unnið að smíði þessa miðlæga gagnagrunns fyrir styrki frá Alþingi og Rannís frá árinu 2001. Í hann verða skráðar allar skógræktarframkvæmdir á Íslandi í stöðluðu formi, og verða þær upplýsingar aðgengilegar til hagræðingar við áætlanagerð. Frekar má lesa um gagnagrunnin hér á heimasíðu Rannís.

Skv. upplýsingum frá Guðmundi Ólafssyni framkvæmdastjóra Héraðsskóga og verkefnastjóra Grænsíðu standa nú yfir prófanir á gagnagrunninum með skógarframkvæmdagögnum Héraðsskóga. Í framhaldi af því geta  landshlutabundnu skógræktarverkefnin tekið til við gagnainnslátt sinna gagna. Guðmundur gerir ráð fyrir að gagnagrunnurinn verði aðgengilegur öllum á veraldarvefnum upp úr lokum sumars. Aðgengi verður stýrt þannig að jarðeigendur geti eingöngu slegið inn og haft aðgang að eigin gögnum, en almenningur getur fengið svör við spurningum í gegnum notendaviðmót gagnagrunnsins. Leitað verður upplýsts samþykkis eignaraðila gagna á grunninum fyrir vísinda- og almenningsnotkun gagnanna.

Kostnaðaráætlun verksins hljómaði upp á 30 milljónir, og er kostnaður innan ramma skv. Guðmundi. Upphafleg tímaáætlun hljómaði upp á 4 ár, en við framkvæmdatíma bættist þegar tekin var ákvörðun um að bæta við landupplýsingakerfistengingu við gagnagrunninn.

(Ingimundur Stefánsson)
banner4