Fréttir

29.04.2006

Málþing og aðalfundur Trjáklúbbsins

Í dag, laugardaginn 29. apríl, gengst Trjáræktarklúbburinn fyrir málþingi um fjölgun tegunda trjáplantna í ræktun á Íslandi, hlutverk klúbbsins í því verkefni og hvernig stofnun Trjásafns höfuðborgarsvæðisins getur þar gegnt lykilhlutverki.

Á málþiginu mun Axel Kristinsson tala um hlutverk trjáklúbbs og trjásafns í fjölgun tegunda, Aðalsteinn Sigurgeirsson ræðir möguleika trjásafns að Mógilsá, Þröstur Eysteinsson fjallar um þróun og aðlögun tegunda og erindi Þorbergs Hjalta Jónssonar nefnist „Salt og trjárækt.“

Sérstakur gestur málþingsins verður Jukka Reinikainen, forstöðumaður Mustila trjásafnsins í Finnlandi en það hefur verið mikilvirkt í að finna og þróa tegundir til ræktunar í Finnlandi.

Ferð hans til Íslands er kostuð af Garðheimum / Gróðurvörum ehf.

Fundarstjóri verður Guðríður Helgadóttir forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar Landbúnaðarháskóla Íslands.

Trjáræktarklúbburin hefur starfað í rúmt ár og hefur nú um 70 meðlimi. Meginmarkmið klúbbsins er að fjölga tegundum trjáplantna í ræktun á Íslandi hvort heldur er til skógræktar eða garðyrkju.

Á stuttum ferli hefur klúbburinn útvegað fræ af um 80 tegundum sem flestar hafa lítt eða ekki verið reyndar hérlendis áður. Meðlimir klúbbsins taka við fræinu og rækta upp plöntur sem síðan er dreift til allra þeirra klúbbmeðlima sem vilja. Gert er ráð fyrir að fá fræ af um 50 nýjum tegundum árlega auk þess sem stefnt er að því að útvega lifandi plöntur.

Klúbburinn hefur í hyggju að stofna og reka Trjásafn höfuðborgarsvæðisins í nágrenni við Rannsóknarstöðina að Mógilsá og mun það verða þungamiðjan í starfi klúbbsins þegar fram líða stundir.

Að loknu málþinginu verður haldinn aðalfundur Trjáræktarklúbbsins þar sem m.a. verður formlega opnaður vefur klúbbins.

Einnig verður fræjum af tegundunum Abies procera (eðalþinur, frá Hveragerði), Amelanchier utahensis og Picea mariana (svartgreni, frá Nýfundnalandi) úthlutað ókeypis til félagsmanna.

Málþingið hefst kl. 13:00, 29. apríl og er haldið í Odda, húsi Háskóla Íslands, stofu 101. Öllum er heimill aðgangur og er hann ókeypis. Aðalfundurinn hefst í beinu framhaldi af málþinginu kl. 16:30 og eru nýjir meðlimir velkomnir.
banner4