Fréttir

25.04.2006

"Molar úr náttúru Íslands" íslenska birkið í listhönnun

Lóa Auðunsdóttir, vöruhönnuður

Mbl., Sunnudaginn 23. apríl, 2006 - Innlent - greinar

Molar úr náttúru Íslands

Í hlutarins eðli. Alltaf á þriðjudögum gæti verið yfirskrift verkefnis þriggja hönnuða, sem vöktu athygli með kollum, á nýafstaðinni hönnunarsýningu í Mílanó, þar sem kallast er á við íslenska náttúru. Lóa Auðunsdóttir kynnti sér kollana og ræddi við hönnuðina.

 Á þriðjudögum síðan í september hafa þrír íslenskir hönnuður hist og unnið saman að verkefni sem unnið er út frá íslenskri náttúru. Hönnuðirnir eru þær Tinna Gunnarsdóttir, Sigríður Sigurjónsdóttir og Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir og verkefnið heitir Tuesday project. Þær eru nýkomnar heim frá Ítalíu þar sem þær sýndu afrakstur þriðjudagsfundanna á hönnunarvikunni í Mílanó. Þær sýndu í nýrri og glæsilegri höll á sýningu sem kallast Salone Satellite en hana sækja hátt í 200.000 sýningargestir á meðan á hönnunarvikunni stendur. Verkefnið snerist um kolla sem þær kalla Mola og eru úr birki með plöntuígræðslum. Blaðamaður spjallaði við hönnuðina um verkefnið þeirra, samstarfið og sýninguna í Mílanó.

 Þær láta vel af samstarfinu og segjast allar hafa haft ánægju af því að vinna saman enda var leikurinn til þess gerður.

"Það var alveg rosalega gaman að vinna saman og ég held að það sé nauðsynlegt hverri skapandi manneskju að vinna líka með öðrum," segir Guðrún Lilja.

 Tinna hefur áður unnið í samstarfi við líbanska hönnuðinn Karen Chekerdijian og sýnt á Satellite í Mílanó 2001 og 2002 en vinnur yfirleitt ein að hönnun sinni.

 Guðrún Lilja er útskrifuð frá Eindhoven-hönnunarskólanum og vinnur nú sjálfstætt sem hönnuður.

 Sigríður er deildarstjóri hönnunardeildar LHÍ en vann sem hönnuður fyrir hátæknifyrirtæki í London og Amsterdam. Þar vandist hún samstarfi þar sem unnið var í hópum sem settir voru saman af mannfræðingum, grafískum hönnuðum, arkitektum, tæknimönnum og leikjahönnuðum eftir því sem við átti hverju sinni. Hún segir að landslagið hér á landi sé enn tiltölulega ómótað og verðmæti og möguleikar hönnunar oft vanmetnir. En þetta sé þó að breytast þar sem fyrirtæki eins og CCP, Nikita, Össur og fleiri hafi sýnt fram á að í góðri hönnun felist mikil verðmætasköpun. Guðrún bætir við að nú séu mikil tækifæri fyrir íslenska hönnuði, sérstaklega erlendis og hún segir að við þurfum að nýta okkur þann meðbyr. "Til þess að geta fylgt þessu og öðrum verkefnum eftir og skapað ný þarf stuðningur að vera aðgengilegur. Það er nokkuð góður stuðningur við sýningarhald en vantar alveg í nýsköpun og prótótýpugerð. Ef ekkert nýtt fæðist er heldur ekkert til að fara með á sýningar."

 En hvað er sameiginlegt með hönnun þeirra og hvað er ólíkt? "Ég er ekki viss um að það sé nokkuð sameiginlegt með hönnun okkar," svarar Sigríður og bætir við að það sé hins vegar margt sameiginlegt með sýn þeirra á hönnun og lífssýn yfirhöfuð. Þó hver og ein hafi sinn eigin stíl og karakter. "Við höfum engan áhuga á yfirborðsmennsku, við höfum áhuga á að vinna með íslenskan efnivið og menningararf á ferskan og vandaðan máta." Guðrún segir að þær eigi það sameiginlegt að þær vilji vinna að því að skapa grundvöll fyrir sig og aðra hönnuði til að geta unnið með þann þjóðararf sem þeim sé gefinn.

 Í fyrstu ætluðu þær að vinna sjálfstæð verkefni með sameiginlegum þræði en ákváðu svo að gaman væri að hanna eitthvað alveg saman. Þær hittust einu sinni í viku nokkra tíma í senn og byrjuðu að fara yfir hugmyndir, þróa þær og hætta við, breyta og bæta þar til þær voru ánægðar.

 "Við héldum okkur við að hittast alltaf á þriðjudögum með smáundantekningum þegar nær dró sýningu og þriðjudagarnir dugðu ekki til," segir Tinna og Guðrún bætir við að þær hafi fengið skemmtileg viðbrögð við sýningunni úti þegar þær sögðu frá vinnufyrirkomulaginu. "Maður hefur nefnilega alltaf tíma til þess að hittast ef ákveðinn partur úr deginum er tekinn frá en ekki allur dagurinn, svo má ekki gleyma hvað allur undirbúningur að sýningunni gekk vel því hægt var að skipta með sér verkum."

 Afrakstur þriðjudagsfundanna er sem fyrr segir kollur sem kallast Moli og er búinn til úr íslensku birki úr sjálfbærum íslenskum skógi. Þær ákváðu í byrjun að vinna undir íslenskum áhrifum og vinna með íslenska náttúru og íslenskt hráefni. Tinna segir að það hafi líklega eitthvað með samtímann að gera.

"Hnattvæðingin kallar á ákveðna leit að sérkennum hverrar þjóðar. Okkar sérkenni eru ekki hvað síst í einstakri náttúru og fínlegum gróðrinum sem hér vex. Stólarnir eru smíðaðri úr íslensku birki sem er einstakt vegna þess hve það vex hægt og er þétt í sér. Fínleikinn skín úr því og það er silkimjúkt."

 Kollarnir eru einfaldir og alþýðlegir í útliti sem er ákveðið mótvægi við þá ofurhönnun sem verið hefur áberandi upp á síðkastið að sögn Sigríðar.

 Þetta alþýðlega útlit er eitthvað sem liggur í loftinu núna og þær skynja að fólk er farið að kalla eftir ákveðnu látleysi.

 Í hvern koll er síðan grædd lítil planta sem búið er að húða í gull, kopar eða króma og gerir það að verkum að hver stóll er sérstakur.

 Krækiberjalyngið er húðað með gulli, bláberjalyngið með kopar en birkigreinarnar eru krómaðar. Plönturnar eru græddar á ólíka og ótrúlegustu staði á kollunum rétt eins og þær vaxa villt úti í náttúrunni. Þær völdu þessar fínlegu og viðkvæmu plöntur til að minna okkur á gersemarnar sem vaxa í náttúru landsins, oft á ólíklegustu stöðum jafnvel í miðri auðn.

 Moli er búinn til í 111 eintökum sem er einnig samanlagður aldur hönnuðanna.

 Hann er handgerður af íslenskum handverksmönnum, húsgagnasmiðnum Guðmundi Jóni Stefánssyni sem þær segja að hafi verið frábært að vinna með, og Jóni Tryggva Þórssyni sem er gullsmiður sem hefur sérhæft sig í að gylla plöntur. Samstarfið við þessa handverksmenn hafi verið sérstaklega skemmtilegt og áhugavert og mjög mikilvægur hluti af verkefninu.

 Sigríður segir einnig að það hafi verið nokkuð sérstakt að vinna með íslenska náttúru einmitt núna í ljósi þeirra stóriðjuframkvæmda sem hér eru í gangi og þeirri aðför að náttúrunni sem íslensk stjórnvöld iðka. Náttúran er ekki eins hrein og sönn uppspretta sem fyrr, og sorglegt að stjórnvöld beri ekki skynbragð á þá ósnertu auðlind sem náttúran er.

 En hvernig viðbrögð fengu þær á sýningunni í Mílanó? "Þau voru bara fín. Við hittum mikið af áhugaverðu fólki í bransanum, blaðamenn, framleiðendur og aðra hönnuði og nú er mikilvægt að fylgja þessu öllu vel eftir," svarar Tinna. "Kostirnir við að taka þátt í sýningu sem þessari er fyrst og fremst kynningin því hana sækja allir sem tengjast hönnunariðnaðinum á einhvern hátt." Sigríður segir að ástæðan fyrir þátttöku þeirra á þessari sýningu hafi verið sú að þær vildu vekja á sér athygli innan hönnunarheimsins og einnig vekja athygli á Íslandi sem hönnunarlandi og því sem hægt er að gera hér.

 Þær ákváðu að hafa sýningarbásinn mjög einfaldan og það gerði það að verkum að hann skar sig úr. "Fólk gekk stundum framhjá básnum okkar en sneri svo við eftir að það sá glitta í plönturnar á kollunum," segir Sigríður.

Verkefnið féll sérstaklega vel í kramið hjá Japönum og Sigríður segir að hún hafi spurt eina japanska konu af hverju henni hafi fundist verkefnið svona áhugavert. Hún hafi svarað því að kollurinn minnti hana á japanskan kímanó þar sem fallegur útsaumur er oft falinn innan í fóðrinu á þeim. Falin fegurð er oft áhugaverðust og það á við um kollinn þar sem plönturnar eru faldar og það þarf að skoða hann nánar til að fegurðin komi í ljós. Þetta á einnig við um plönturnar sem vaxa villtar í íslenskri náttúru.

 Kollarnir/Molarnir eru nú á leið heim frá Mílanó og verða til sýnis og sölu í sýningarrými Steinunnar Sigurðardóttur í Kjörgarði, 2. hæð, á Laugavegi næstu vikurnar.

Það er margt á döfinni hjá þeim Tinnu, Sigríði og Guðrúnu, meðal annars íslenskt sumar og fleiri verkefni en þær ætla að halda áfram að hittast á þriðjudögum.

 Höfundur er vöruhönnuður.

 www.tuesdayproject.com
banner1