Fréttir

14.03.2006

Skógar eru mikilvæg útivistarsvæði

Bæta þarf aðstöðu í þéttbýli
Stóraukin fjárframlög þarf til skógræktarmála frá ríki og sveitarfélögum

(Morgunblaðið, 14. mars, 2006 – Fréttaskýring / Innlendar fréttir)

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is

Grænn trefill - skóglendissvæði tengd saman
Helstu skóglendissvæði höfuðborgarsvæðisins eru í Hafnarfirði í kringum Hvaleyrarvatn, í Heiðmörk, Elliðaárdalnum, Fossvogsdal og í Öskjuhlíð. Þá er mikið af vaxandi skóglendum á Hólmsheiði, en þar er um að ræða ungskóga. Þá eru skóglendissvæði í Mosfellsbæ og í Esjuhlíðum. Hugmyndir eru uppi um að vinna að hinum svonefnda græna trefli, sem felst í því að tengja þessi skógræktarsvæði saman með beinum hætti. Mynd: Fjölskylda í gönguferð í Heiðmörk. Ljósmyndari: Christopher Lund (
www.myndasafn.is).


Íslensk löggjöf um skógrækt er orðin meira en 50 ára gömul og tekur ekki mið af nútímaþjóðfélagi og þörfum íbúa þess, að sögn Brynjólfs Jónssonar, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands. Hann segir jákvætt að unnið hafi verið að því að auka skóglendi á Íslandi, en í dag sé innan við 1% landsins skógi vaxin. Nýjum tímum fylgi hins vegar breyttar áherslur og nauðsynlegt sé að horfa ekki aðeins á skógrækt út frá hugmyndum um nytjaskóga, líkt og hér hafi verið gert í gegnum tíðina, heldur líta einnig til gildis þeirra sem útivistarsvæða. Þessi mál voru rædd á ráðstefnu á laugardag sem bar yfirskriftina Skógar og lýðheilsa, en að ráðstefnunni stóðu Skógræktarfélag Íslands, Rannsóknarstöð skógræktar á Mógilsá og Skógræktarfélag Reykjavíkur.

Brynjólfur segir að löggjöf um skógrækt í nágrannalöndum Íslands hafi verið endurskoðuð og henni breytt á síðastliðnum 15-20 árum. Hafi hún breyst frá því að leggja helst áherslu á nytjaskógrækt yfir í að skógar þjóni útivistarhlutverki. Enn hafi íslenska löggjöfin ekki verið endurskoðuð, en hún er frá árinu 1955. „Íslensku lögin taka mið af allt annarri þjóð, sem var landbúnaðarþjóð og byggði afkomu sína á sauðfjárbúskap og fiskveiðum. Það eru nánast engin not af þessum lögum í dag,“ segir Brynjólfur. Inntur eftir skýringum á þessu segir hann að hugsast geti að Íslendingar hafi verið of uppteknir af því að líta á skógræktina sem endurheimt á skóglendum og ekki áttað sig á því mikilvæga og fjölbreytta gildi sem skógurinn geti haft fyrir allt útivistarlíf.

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, getur tekið undir orð Brynjólfs og segir ráðuneytið hafa unnið að því að fara yfir málið á undanförnum árum. „Það hefur auðvitað verið hér á dagskrá og við höfum lagt mikla vinnu í að færa [löggjöfina] til nútímans. Sú vinna hefur enn ekki klárast og kannski dregist í ljósi annarrar umræðu, eins og núna um skógrækt og landgræðslu en báðar þessar stofnanir þurfa á nýrri löggjöf að halda,“ segir ráðherra en getur ekki svarað hvenær áætlað er að endurskoðun laganna ljúki, verkefnið sé brýnt en jafnframt stórt og vinnan mun halda áfram.

Sáralítið fé til uppbyggingar
Brynjólfur segir að á síðustu árum hafi sáralítið fjármagn runnið til uppbyggingar skóglendissvæða á höfuðborgarsvæðinu. Betri göngustíga vanti en þeir séu víða að verða útslitnir af umferð. Þá þurfi að bæta merkingar og aðstöðu, meðal annars með því að koma upp hreinlætisaðstöðu.
Stóraukið fjárframlag þurfi að renna til þessara mála og þurfi féð bæði að koma frá ríkinu og frá sveitarfélögunum. Í dag renni um 100 milljónir króna í verkefni skógræktarfélaganna á ári. Þar af leggi ríkið til um 29 milljónir króna og sveitarfélögin um 60 milljónir, en annað sé sjálfsaflafé sem komi frá ýmsum styrktaraðilum. „Við verðum vör við það vegna ýmissa styrkja sem skógræktarfélögin sækja í að það eru alltaf margfalt hærri upphæðir sem sótt er um en hægt er að úthluta. Þörfin er gríðarlega mikil allt í kringum landið, en mest þar sem þéttbýli er mest. Þar þarf að leggja til verulegt fé til uppbyggingar, annars drabbast þetta niður,“ segir Brynjólfur og vísar til fyrirmyndar aðstöðu sem komið hefur verið upp í Kjarnaskógi sunnan Akureyrar. Þar séu upplýstir göngustígar, sem ekki séu fyrir hendi á höfuðborgarsvæðinu og í raun besta aðstaða til útivistar í skóglendi á landinu.

Umhverfið þarf að vera styðjandi
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hreyfingar hjá Lýðheilsustöð, flutti framsögu á ráðstefnunni á laugardag, um skógrækt og heilsurækt. Gígja bendir á að heilsa sé afurð af samspili einstaklingsins og umhverfis hans. Mikilvægt sé að hver og einn taki ábyrgð á eigin heilsu, en umhverfið þurfi einnig að vera styðjandi. Samkvæmt Evrópuskýrslu WHO séu um 77% sjúkdóma í Evrópu langvinnir sjúkdómar, s.s. hjarta- og æðasjúkdómar og geðraskanir, en hreyfingarleysi sé nefnt sem einn af sjö mikilvægustu áhrifaþáttum þessara sjúkdóma. Til þess að hvetja og styðja fólk til aukinnar hreyfingar sé mikilvægt að hafa áhrif á viðhorf og ekki síst bæta aðgengi að sem fjölbreyttustum valkostum til hreyfingar. Skógrækt stuðli þannig ekki aðeins að bættri heilsu heldur skapi hún einnig tækifæri fyrir t.d. fjölskyldur og vini til að stunda ýmiss konar útivist í fallegu umhverfi og fersku lofti. „Enn frekari áhersla á skógrækt í tengslum við þéttbýli með þarfir íbúanna í huga er mikilvægt forvarnarstarf sem mun án efa hvetja fleiri til stunda útivist sér til ánægju og heilsubótar.“
banner3