Fréttir

07.03.2006

Frétt um skógarhögg á Þingvöllum

Þessa dagana stendur yfir skógarhögg á Þingvöllum. Verkið er unnið af starfsfólki Skógræktar ríkisins með aðstoð verktaka á vegum Þingvallanefndar. Unnið er samkvæmt stefnu nefndarinnar að fjarlægja tré úr sjálfri þinghelginni. Er það gert í tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi til að koma í veg fyrir að trjárætur vaxi inn í rústir og auðvelda þar með fornleifauppgröft. Í öðru lagi að framfylgja stefnu þeirri er sett var í tengslum við samþykkt Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO.

Á síðustu árum hefur trjánum í þinghelginni smám saman verið fækkað og það verk unnið á vetrum þegar jarðvegur er frosinn til að koma í veg fyrir skemmdir á landi. Trén sem um ræðir voru gróðursett um miðja síðustu öld af ýmsum aðilum. Einnig hafa tré verið fjarlægð víðar um Þingvelli. Er þar yfirleitt um að ræða stök tré eða sjúk.

Ekki stendur til að fella tré í Furulundinum á Þingvöllum en þar hófst skógrækt á Íslandi árið 1899. Til stendur að grisja skóga í Hrafnagjárhalli á næstu árum en þeir eru orðnir mjög þéttir og gætu skemmst séu þeir ekki grisjaðir.

Á því svæði stendur til að opna útivistarsvæði á næstu árum. Þar verða settir upp áningarstaðir fyrir ferðamenn og bætt við göngustígum. Munu gestir Þjóðgarðsins því geta áð í skjóli trjáa þó veður séu válynd.
banner4