Fréttir

02.03.2006

Minnkar kolefnisbinding með trjám hættuna á skriðuföllum í Asíu?

Nú eru komnar fram raddir er telja að brottnám skógarþekju á aurskriðusvæðunum á Filippseyjum hafi verið frekari orsakavaldur skriðufalla í febrúar síðastliðnum sem og á sama tíma síðustu ár en séð verði við fyrstu sýn. Þetta segir Annabelle E. Plantilla í vefútgáfu Manilla Times 25. febrúar síðastliðinn. Meðfylgjandi mynd sýnir hina gríðarstóru aurskriðu er féll úr Can-abag fjalli yfir m.a. Guinsaugon þorp á Leyte eyju á Filippseyjum í miðjum febrúarmánuði (Mynd: © Antigua News). Skriðan féll stuttu eftir jarðskjálfta upp á 2,6 á Richterskala í nágrenni fjallsins og er talið að um 1800 manns hafi látist.

Gríðarlegar rigningar óvenjulegar á þessum árstíma

 Skv.fréttastofu BBC rigndi yfir 200mm vatns á hverjum degi tíu dagana á undan skriðuföllunum. Slíkt sé í hæsta máta óvenjulegt á þessu árstíma, en rigningarveður mikil eigi sér yfirleitt stað frá júní og fram í desember. Í janúarmánuði verði t.d. að meðaltali um 60 mannskæð skriðuföll á heimsvísu, en í ár hafi þau verið 283, þ.e. rúmmlega fjórföld sbr. við meðal ár.  

Þekkt áhrif skógarhöggs á jarðveg og skriðuföll

Trjákrónur taka upp vatn og minnka þannig brotáhrif vatnsdropa á lítt eða óvarða jörð. Öflugt rótarkerfi trjáa stuðlar að loftæðum í jarðvegi og rennsli vatns um æðar þessar niður í jarðveginn í stað þess að renna með eyðingarhætti um yfirborðið. Að auki berst vatn úr iðrum jarðar út í andrúmsloftið með uppgufun úr laufum og barri trjáa, og kemur þannig í veg fyrir vatnsmettaðan jarðveg. Þessu til viðbótar halda djúpar rætur gróðurs jarðveginum saman. Guinsaugon var áður skógi klætt en hann hefur vikið fyrir byggð og kókoshnetutrjám, sem þrátt fyrir að vera tré, hafa grunnar rætur og koma því síður í veg fyrir jarðvegseyðingu í samanburði við margar aðrar tegundir.

Kolefnisbinding með trjám og áhrif þessa á veðurfar – ákall um styrkingu regnskóganna

Prófessor Dave Petlay hjá Alþjóðlegu skriðufallastofnuninni (skemmtilegur titill) segir í frétt BBC að hér geti verið um La Nina að ræða – vatns- og vindaveður er skelli á Kyrrahafssvæðum með reglulegu millibili vegna óvenju kalds sjós við miðbaug.

Plantilla bendir hins vegar á að hið óvenju mikla regn á þessum árstíma undanfarin ár kunni að stafa af veðurfarsbreytingum (climate change) sem orsakast af gróðurhúsalofttegundum. Hún bendir á að miðlunarhlutverk skóga sé ekki bara falið í ofangreindum vatnsáhrifum heldur einnig bindingu skóga á kolefni, stórum hluta gróðurhúsalofttegundanna, og þar með stýringu á veðurfari. Kallar hún á Filippseyinga að hjálpa til og setja niður fræ af trjám regnskóganna á hin ruddu svæði svo auka megi m.a. kolefnisbindingu og minnka þannig veðurfarsbreytingar af völdum gróðurhúsalofttegunda.

(þýtt, endursagt og bætt við úr fréttum frá Mannilla Times, BBC on-line og Yahoo news. IS)

 
banner1