Fréttir

01.03.2006

Skógar þenjast út en auðnir dragast saman í Kína

Kínversk stjórnvöld hyggjast auka þekju skóglenda í 70% borga landsins og stefna að því takmarki að hver þéttbýlisbúi hafi aðgang að a.m.k. átta fermetrum af skóglendi til útivistar.

Einnig eru fyrirhugaðar aðgerðir sem miða að því að fyrir árið 2010 verði búið að auka þekju skóga í þessu þéttbýla landi í 20% af heildarflatarmáli landsins.  Sömuleiðis er stefnt að því að búið verði að tryggja verndun helmings votlendis og 90% þeirra dýrategunda sem nú eru á válista. Komu þessar upplýsingar fram á blaðamannafundi sem Jia Zhibang, skógræktarstjóri Kína, boðaði nýlega til.

Kínverjar hafa á árabilinu 2001-2005 gróðursett tólf milljarða trjáplantna á 32 milljónum hektara. Á sama árabili hefur þekja skóga, sem hlutfall af heildarflatarmáli lands, aukist á landsvísu úr 16,5% í 18,2%. Stór hluti þeirra gróðursetninga hefur verið unnin af sjálfboðaliðum.

Á síðustu árum hefur flatarmál sandauðna minnkað um 1283 ferkílómetra árlega. Hefur orðið mikil breyting frá þeirri hnignun skóga, gróður og jarðvegs sem setti svip sinn á Kína á síðari helmingi síðustu aldar, en þá jókst flatarmál auðna árlega um 3400 ferkílómetra.

Heimildir og ítarefni:  Fréttastofan Xinhua, 27. febrúar 2006
banner1