Fréttir

01.03.2006

„Eins og að verjast ísbirni með teygjubyssu“

Í Morgunblaðinu í gær, þriðjudaginn 28. febrúar, birtir Gunnar Þór Hallgrímsson líffræðingur grein undir fyrrnefndu heiti. Í greininni er fjallað um fjölmiðlaumræður þær sem kviknuðu í byrjun mánaðarins um sambýli skóga og mófugla. Í niðurlagi greinarinnar kvartar höfundur yfir því að skógræktaraðilar í landinu, þ.á.m. skógræktarstjóri, vilji kæfa alla umræðu um skógrækt í landinu, nema að hún sé á jákvæðum nótum. Ekki er þetta nú alls kostar rétt. Skógrækt ríkisins fagnar allri umræðu og rannsóknum sem tengjast skógrækt og áhrifum skóga á lífríki og umhverfi, hvort sem hún lýtur að jákvæðum hliðum hennar eða skuggahliðum, séu málin sett fram með málefnalegum rökum.

Til þess að stuðla að frekari skoðanaskiptum og umræðu, birtist grein Gunnars hér, í heild sinni.

Í FRÉTTUM útvarps og sjónvarps hinn 8. febrúar sl. kynnti dr. Tómas G. Gunnarsson líffræðingur niðurstöður rannsóknar sem hann hefur unnið að í samstarfi við innlenda og erlenda sérfræðinga. Þar talaði Tómas um þá hættu sem gæti fylgt mikilli skógrækt hérlendis. Rök hans voru mjög skýr. Margar mófuglategundir þrífast ekki í skóglendi. Ísland ber alþjóðlega ábyrgð á nokkrum þessara mófuglategunda þar sem stór hluti alheimsstofna þeirra er á Íslandi. Með aukinni skógrækt göngum við á búsvæði þessara tegunda. Tómas tók sérstaklega fram að hann teldi þó enga tegundanna í útrýmingarhættu.
Morguninn eftir var kominn pistill á heimasíðu Skógræktar ríkisins þar sem brugðist var við þessari frétt. Jafnframt var henni svarað sama dag í morgunfréttum útvarps og í kvöldfréttum sjónvarps.

Mikilvægi Íslands
Á Íslandi verpa 30-50% af alheimsstofnum spóa og heiðlóu. Á Íslandi er einnig að finna sérstakan stofn jaðrakans sem verpur nánast hvergi utan Íslands. Þessar tegundir, eins og raunar flestar tegundir mófugla, hörfa undan skógrækt. Er eitthvað athugavert við að bent sé á þá hættu sem að þessum fuglum gæti steðjað verði ráðist í umfangsmikla skógrækt? Fólkið í landinu þarf að vera meðvitað um kosti og lesti skógræktaráforma á stórum skala.


Svar skógræktarstjóra
Í svari skógræktarstjóra í morgunfréttum útvarps kom fram að áhrif skógræktar á mófugla væru hverfandi þar sem ekki væri verið að planta svo mikið í flöt mýrlendi. Hann sagði ennfremur að skógrækt gengi best í brekkum og hlíðum og þar ætti þetta ekki að vera vandamál. Þá benti hann á að mófuglar væru flestir farfuglar og að þeir væru veiddir erlendis og því þyrfti að taka tillit til þess. Auk þess hefðu rannsóknir sýnt að þéttleiki fugla annarra en mófugla hefði þrefaldast við skógrækt. Nefndi hann að skógrækt gæti orðið auðnutittlingum og snjótittlingum til framdráttar (innsk.: hlýtur að vera misskilningur þar sem snjótittlingur er bersvæðisfugl en ekki skógarfugl).

Mér þykja viðbrögð skógræktarstjóra fremur dapurleg. Hann hefði getað tekið tillit til niðurstaðna rannsóknarinnar og hvatt til þess að þáttur mófugla yrði tekinn til hliðsjónar við stefnumótun skógræktar hérlendis. Þess í stað gerir hann lítið úr niðurstöðum Tómasar og beitir fyrir sig rökum sem kolfalla. Flöt mýrlendi eru t.d. ekki kjörlendi heiðlóu. Í brekkum og hlíðum verpa margar tegundir mófugla þó að þéttleiki þeirra sé oft ekki mikill. Niðurstöður Tómasar og félaga hafa verið yfirfarnar af erlendum vísindamönnum og búið er að samþykkja þær til birtingar í virtu alþjóðlegu vísindatímariti, Biological Conservation. Það þarf meira en eitt pennastrik til að slá slíkt út af borðinu.
Boðskapur Tómasar var skýr: mófuglavarp og skógrækt keppa um svæði. Aukið flatarmál skógræktar bitnar því á mófuglum, jafnvel tegundum sem við berum alþjóðlega ábyrgð á. Þessari staðreynd verður ekki snúið á hvolf með því að nefna veiðar á mófuglum úti í heimi, meiri þéttleika annarra fuglahópa í skógum né nýja landnema hérlendis.

Hvað veldur?
Það er áhugavert að verða vitni að þeirri ólgu sem verður þegar minnst er á möguleg neikvæð áhrif skógræktar. Það virðist stundum jaðra við að það sé ekki einu sinni pláss fyrir annað en einungis jákvæð viðhorf í garð skógræktar. Annað er bara niðurrif og neikvæðni. Þetta er eins og að verjast ísbirni með teygjubyssu. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvað veldur. Sá heilbrigði ungmennafélagsandi sem fylgt hefur skógrækt er e.t.v. hluti skýringarinnar. Maður uppsker eins og maður sáir. Maður græðir líka landið með Olís. Þegar forsetinn sjálfur hvetur til skógræktar þarf enginn lengur að velkjast í vafa um að skógrækt er holl og góð. Er einhver möguleiki á því að umræðan hafi e.t.v. verið svolítið einhliða? Góðir hlutir geta líka haft skuggahliðar. Þá þarf að ræða, ekki kæfa!
 

Höfundur er líffræðingur
banner3