Fréttir

10.02.2006

Tré og runnar hentugt skjól fyrir hesta sem fælast manngert skjól

Skógrækt ríkisins hvetur hestaeigendur til að hugleiða tré og runna sem skjól fyrir hesta sína. Fram kom í máli Óðins Arnars Jóhannssonar búfjáreftirlistmanns í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins 8. febrúar að enn vanti upp á að hestum sé búið skjól fyrir veðri og vindum. Á slíkt er kveðið í lögum. Hann sagði jafnframt að hestar sæki ekki í manngert skjól, svo sem bárujárnsveggi sem í syngur þegar vindasamt er. Á þetta sérstaklega við ótamin hross.

Því hvetur Skógrækt ríkisins hestaeigendur til að hugleiða gróðursetningu trjáa og runna til skjólmyndunar. Meðfylgjandi mynd Þrastar Eysteinssonar sýnir hesta á Héraði þiggja það skjól sem þó er að finna af litlum gulvíðisrunna í hráslagalegu norðan hvassviðri. Slíkt skjól viðheldur sér sjálft með tímanum ef komið er í veg fyrir nag yfir köldustu mánuðina. Koltvísýringsbindandi skjólveggirnir stækka einnig með tímanum og auka þannig skjólið til langs tíma - eru veggir sem vaxa!

(IS)
banner5