Fréttir

07.02.2006

Áhrif íslenskrar skógræktar á mófugla

Í nýútkominni grein í Biological Conservation (128 (2006) 265-275) má finna fróðleik um búsvæði mófuglategunda sem getur haft áhrif á stefnumið í skógræktarmálum hér á landi. Greinin nefnist „Large scale habitat associations of birds in lowland Iceland: Implications for conservation“ og er Tómas G. Gunnarsson líffræðingur fyrsti höfundur hennar. Er þar fjallað m.a. um hugsanleg áhrif nýskógræktar hér á landi á mófuglastofna. Flestar tegundir mófugla velja sér varpsvæði á opnu lág- og votlendi en forðast skóglendi, að hrossagauk undanskildum sem nýtir sér hvort tveggja, skóglendi og skóglaus gróðurlendi. Hafa starfsmenn Skógræktar ríkisins dregið þá ályktun, m.a. af grein Tómasar, sem fyrst birtist á vef tímaritsins um áramót, að hægt sé að forðast hugsanleg neikvæð áhrif á mófuglastofna með áherslu á nýskógrækt í brekkum, hæðóttu eða vangrónu landi, og með því að forðast að taka flatlenda hrísmóa og óframræst votlendi til nýskógræktar. Hefur tilmælum í þessa veru verið beint til þeirra sem vinna að gerð ræktunaráætlana í skógrækt.

Neikvæð áhrif nýskógræktar?

Í morgunfréttum ríkisútvarpsins og kvöldfréttum sjónvarps  þann 7. febrúar var vitnað til ofangreindrar greinar ásamt viðtali við Tómas. Þar er því haldið fram að skógrækt á Íslandi geti á næstu árum haft veruleg áhrif til fækkunar í mófuglastofnum þar sem hér standi til að gróðursetja tré víða á láglendi. Það fylgdi reyndar ekki sögunni að í nýlegum rannsóknum Náttúrufræðistofnunar hefur komið í ljós að varpþéttleiki fugla ríflega þrefaldast í kjölfar skógræktar, hvort sem þar var um að ræða birkiskóg eða barrskóg. Við skógræktina eykst mjög hlutdeild fremur sjaldgæfra spörfugla landsins á kostnað ákveðinna tegunda algengra mófugla.

Núverandi staða

Skógrækt ríkisins telur reyndar að þessi áhrif á stofna mófugla hérlendis verði hverfandi lítil, bæði vegna lítillar ásóknar skógræktenda í að rækta skóg á votlendu, flatlendu mólendi og ekki síður út af tiltölulega litlu umfangi nýskógræktar hérlendis almennt. Það er langt í að hógvær markmið löggjafans um gróðursetningu trjáa á a.m.k. 5% (215.500 ha eða 2.155 km2) láglendis Íslands fyrir árið 2040 náist. Nú eru um 0,6% láglendis (280 km2) vaxið gróðursettum skógi, en tæp 3% (1.200 km2) láglendis eru vaxin náttúrlegum birkiskógi eða kjarri (óbirt gögn Arnórs Snorrasonar). Sé miðað við árlega gróðursetningu á 18 km2 lands (áætluð tala fyrir árið 2004, skv. Arnóri Snorrasyni) munu ríflega 104 ár líða þar til fyrrgreindu markmiði verður náð. Svörtu reitirnir á meðfylgjandi korti sýna hlutfall þess láglendis sem markmið er um að klæða skógi í hverjum landshluta. (Kort: Bjarki Þór Kjartansson, Skógrækt rikisins).

Framhald á fyrri umræðum – skógrækt og rjúpan

Ekki er þetta fyrsta dæmið um áhyggjur líffræðinga af sambýli meintra „bersvæðisfugla“ og trjágróðurs. Hér skal minnt á þær snörpu deilur sem upp spruttu árið 2001 um áhrif skógræktar á afkomu rjúpna. Þáverandi umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir sagði að styrking rjúpnastofnsins fælist m.a. í því að vernda uppeldissvæði rjúpunnar, „t.d. að þau verði ekki eyðilögð með skógrækt“ (DV.07.03.2001). Ólafur K. Nielsen líffræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands og ráðgjafi ráðherra í þessu máli hélt því fram að 50-60.000 rjúpnaungar gætu tapast í hámarksrjúpnaári ef ræktun á 750 km2 af barrskógum næði fram að ganga. Margir urðu til andsvara, og bent var á að engar rannsóknir styddu þessar tilgátur. Eins mætti geta sér til að skjól af skógi minnkaði vetrarafföll rjúpu, aðaláhrifavald rjúpnastofnsins skv. Ólafi, sem næmi 50-60.000 ungum í hámarksári. Og gagnstætt því sem Ólafur héldi fram væru dæmi þess að rjúpa nærðist á brumum margra trjátegunda, þ.m.t. barrtrjáa, s.s. lerkis og grenis.


Rök og vísindalegur stuðningur


Skógrækt ríkisins vill taka það fram að skógræktarmenn eru fullir vilja til að rökræða og rannsaka vistfræðileg áhrif skógræktar. Skynsamlegt sé að bregðast við þegar rannsóknir styðji rök, til dæmis með því að beina ræktun nýrra skóga í auknum mæli að landgerðum sem ekki teljast mikilvægustu búsvæði mófuglategunda. Sömuleiðis má nefna, að undanfarin fjögur ár hefur verið unnið að rannsóknaverkefninu Skógvist, í samstarfi vísindamanna hjá Skógrækt ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands, sem m.a. hefur það markmið að kanna áhrif nýskógræktar á viðgang fuglastofna. Hvað varði aðrar fuglategundir, verður líka að taka tillit til stofna þeirra fuglategunda sem háðir eru skógum, s.s. auðnutittlings, þúfutittlings og músarindils, og sem hafa að fáum búsvæðum hér á landi að hverfa sökum skógleysis.


(IS)
banner5