Fréttir

16.12.2005

Kynning á íslenskum jólatrjám í Smáralind

Nú stendur yfir kynning á íslenskum jólatrjám í Smáralind í Kópavogi.

Kynningin er í formi jólagetraunar um íslensk jólatré sem fram fer við hlið fallegrar stafafuru í vesturenda Smáralindar. Markmiðið er að sýna hve stafafuran er fallegt jólatré.

Stafafuran er afar barrheldin og ilmar vel og er það
jólatré sem hvað mestir möguleikar eru á að rækta hér á landi.

Þrír þáttakendur, sem svara spurningum rétt, eiga möguleika á að fá heimsenda stafafuru sem jólatré fyrir jólin.

Hér sést þessi fallega stafafura frá Snæfoksstöðum í Árnessýslu. Myndin er tekin áður en tréð var skreytt. Mynd: JFG

Starfsmenn Skógræktarfélags Árnesinga völdu furuna á Snæfoksstöðum, sérstaklega fyrir kynninguna. Tréð er gróðursett um 1982 og er um 4 m á hæð og ákaflega fallegt.

Skógrækt ríkisins ásamt Skógræktarfélagi Íslands standa fyrir kynningunni í ágætri samvinnu við Smáralind.

Á Íslandi eru ræktaðar þrjár aðaltegundir jólatrjáa. Það eru stafafura, rauðgreni og blágreni. Það tekur stafafuruna um 10-15 ár að ná æskilegri hæð, en rauð- og blágrenið frá 15-25.

Það skiptir máli hvernig tré fólk velur um jólin. Íslensk jólatré eru umhverfisvænni en innflutt lifandi tré og gervitré. Við ræktun íslenskra jólatrjáa er ekkert notað af mengandi efnum. Við ræktun víða erlendis er notað mikið af illgresis- og skordýraeitri sem ekki þarf hér.

Við þetta bætist að eldsneytisnotkun er meiri þegar trén eru flutt inn frá útlöndum. Lifandi tré eru umhverfisvænni en gervitré og lifandi tré má endurvinna.

Með því að velja íslenskt jólatré í ár styður þú við skógrækt á Íslandi. Þú getur keypt íslensk jólatré hjá:

- Skógræktarfélögum víða um land
- Blómavali
- Garðheimum
- auk ýmissa smærri söluaðila s.s. Björgunarsveita.
banner4