Fréttir

06.12.2005

Dýr "jólatré" í Ástralíu

Í nýjasta hefti breska garðyrkjublaðsins Garden er sagt frá uppboði á trjáplöntum í Ástralíu. Boðnar voru upp nokkrar pottaplöntur, um 1 m á hæð, ýmist stakar eða nokkrar saman. Hæsta verð fékkst fyrir 5 plöntur sem seldar voru saman – 14.420 pund. Á gengi 5. des. samsvarar þetta um kr. 1.615.000 eða kr. 323.000 á plöntu.

Áfram má reikna: Væri hektari gróðursettur með 2500 svona trjám væri kostnaður vegna plöntukaupa 807,5 milljónir króna, eða snöggt um meira en öll ríkisframlög til skógræktar á Íslandi skv. fjárlagafrumvarpi fyrir 2006.

Hvaða tré er svona verðmætt? Jú, það er wollemifura, frumstætt barrtré sem eingöngu þekktist af steingerfingum, en uppgötvaðist fyrir nokkrum árum síðan í afskekktu gljúfri í Ástralíu. Þetta munu vera einhverjar fyrstu plöntur tegundarinnar sem boðnar eru almenningi til sölu. Reyndar var um að ræða fjáröflun í þágu verndar tegundarinnar og voru kaupendur því að borga fyrir meira en plönturnar. Tegundin fer svo fyrst í almenna sölu í apríl n.k. og geta Ástralir þá keypt 0,6-1,5 m háar pottaplöntur á 50-100 ástralska dollara stk. sem er eðlilegt hnausplöntuverð hér á Íslandi (kr. 2300-4800) en þykir eflaust nokkuð dýrt í Ástralíu.
banner5