Fréttir

01.11.2005

Birki fer að vaxa á hálendinu vegna hærra hitastigs

Birki mun fara að vaxa á hálendinu og trjátegundir eins beyki og eik munu dafna víða um land á næstu áratugum, rætist spár um hækkun hitastigs á Íslandi, að mati Ingva Þorsteinssonar náttúrufræðings. Þá mun uppskera aukast og kornrækt styrkjast. Vísindamenn spá því að meðalhiti á Íslandi muni hækka um tvær til þrjár gráður á næstu hundrað árum. Ingvi Þorsteinsson náttúrufræðingur segir að slík hlýnun muni hafa veruleg áhrif á útbreiðslu gróðurs í landinu, ekki síst muni gróður breiðast hærra upp á hálendi landsins. Samtímis muni uppskera í landinu aukast með vaxandi hitastigi svo fremi sem úrkoma fylgi í kjölfarið.

Hann nefnir sem dæmi að skógarmörk birkis, sem nú liggja í um 400 metra hæð að meðaltali yfir sjávarmáli, muni hækka eftir því sem hitastigið hækkar. Vaxtarmöguleikar annarra trjátegunda, eins og furu og grenis, munu batna og nýjar tegundir munu festa rætur. Ingvi segir að samkvæmt skógræktarmönnum verði það fyrst og fremst beyki sem sé hafræn tegund og yrði niður með ströndinni. Þá hafi menn nefnt eikina sem yrði þá meira inn til landsins.

Hann segir að maðurinn geti haft veruleg áhrif, svo sem með skógrækt. Það sé matsatriði á hverjum tíma hversu mörgum trjám sé plantað. Það þurfi að fara að gera landsskipulag yfir það hvar eigi að rækta skóg og hvar verði beitiland og kornrækt. Ingvi er ekki viss um að korntegundum muni fjölga heldur muni ræktun tegunda, eins og byggs, sem þegar er fyrir hendi, styrkjast. Kornrækt muni verða stunduð með miklu meira öryggi en sé í dag.

Frétt af Stöð 2, 1. nóvember 2005

Ítarefni: Áhrif hitabreytinga á skógrækt
banner3