Fréttir

21.09.2005

Fræsöfnun á fallegum haustdegi

Í dag söfnuðu nemendur úr Fjölbrautaskóla Suðurlands, Menntaskólanum á Laugarvatni, auk nemenda úr Gunnskólanum á Hellu birkifræi í skógi Skógræktarfélags Rangæinga í Bolholti. Vel viðraði til frætínslu og skemmtu nemendur sér hið besta. Er þessi fræsöfnun liður í undirbúningi að Hekluskógum, en um þessar mundir er unnið að því að koma verkefninu á laggirnar. Megintilgangur Hekluskóga er að verja land í nágrenni Heklu fyrir áföllum vegna öskufalls með því að gróðursetja birkiskóga og kjarrlendi á stórum, samfelldum svæðum í grennd Heklu. Rúmlega tíu kíló af óhreinsuðu birkifræi söfnuðust í dag en það gæti dugað til ræktunar á allt að 5 milljónum birkiplantna. Samstarfsaðilar að Hekluskógaverkefninu þakka nemendum fyrir vel unnin störf við fræsöfnunina.

Á meðfylgjandi myndum sést hluti skógarins í Bolholti á Rangárvöllum, en þar hófst skógrækt fyrir aðeins 15 árum. Sá góði árangur sem þar má sjá sýnir vel hvað hægt er að gera á illa grónum vikrum í nágrenni Heklu.
Hér má sjá fleiri myndir úr fræsöfnunarferðinni.
banner2