Fréttir

03.09.2005

Mikil breyting á viðhorfi til verðmætis skóga

ORÐIÐ hefur mikil breyting á mati fólks á verðmæti skóga á undanförnum 30 árum. (Morgunblaðið, sunnudaginn 4. september 2005)

Mynd: Vel var mætt af hálfu íslensks skógræktarfólks á ráðstefnuna ?Gildi skógarins fyrir nærsamfélög á Norðurlöndum? sem haldin var í Nødebo á Sjálandi dagana 29.-30. ágúst s.l. Á myndinni sést hluti íslensku sendinefndarinnar á fundinum; f.v. Níels Árni Lund, skrifstofustjóri í landbúnaðarráðuneytinu; Eysteinn Jónsson, aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra; Guðmundur Halldórsson, sérfræðingur á Mógilsá; Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra; frú Margrét Hauksdóttir; Björn Bjarndal Jónsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga; Jóhann Hlíðar Harðarson, túlkur; Edda Björnsdóttir, formaður landssamtaka skógareigenda. Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.

ORÐIÐ hefur mikil breyting á mati fólks á verðmæti skóga á undanförnum 30 árum. Áður fyrr fólst gildi skógarins fyrst og fremst í þeim trjáviði sem hann gaf af sér en að undanförnu hefur vægi annarra afurða farið sívaxandi og nýting skóga orðið fjölþættari, m.a. vegna ferðamennsku, kolefnisbindingar, verndunar líffræðilegs fjölbreytileika o.fl. Þetta kemur fram í skýrslum sem unnar hafa verið fyrir Norðurlandaráð og lagðar voru fram á norrænni ráðstefnu í Nödebo á Sjálandi dagana 29. og 30. ágúst, undir yfirskriftinni: Gildi skógarins fyrir nærsamfélög á Norðurlöndum. Ráðstefnan var haldin á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og fjallaði um skógrækt og þýðingu skóga fyrir byggðir og sveitarfélög, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli. Ráðstefnuna sóttu ráðherrar skógarmála á öllum Norðurlöndunum og/eða fulltrúar þeirra. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra fór fyrir íslensku sendinefndinni.

Fram kom að nýskógrækt hafi mikil margfeldisáhrif í þessum samfélögum ekki hvað síst vegna þess að hún eykur verulega verðmæti lands og fasteigna. Rætt var hvernig megi efla þessa verðmætasköpun og opna augu almennings og stjórnvalda betur fyrir þeim miklu möguleikum sem þar felast.

Mikill áhugi á Íslandi á að auka þekju skóga

Í máli sínu á ráðstefnunni lagði Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra áherslu á hinn mikla mun sem er meðal Norðurlandanna með tilliti til skógræktar og á margháttaða þýðingu þess að rækta nýja skóga og endurheimta skóglendi þar sem það hefur eyðst. Þrátt fyrir skógleysi Íslands er mikill áhugi hjá stjórnvöldum og almenningi á Íslandi á að auka þekju skóga. Á heimsvísu skiptir aukin nýskógrækt miklu máli þar sem nú eyðist árlega þrisvar sinnum stærra flatarmál skógar en grætt er upp. Lagði Guðni áherslu á að Norðurlöndin gegndu forystuhlutverki í skógrækt á heimsvísu og að á þessu sviði yrðu þau að láta meira til sín taka. Þar gæti reynsla Íslendinga eftir tíu alda eyðingu skóga og jarðvegs og einnar aldar aðgerðir til þess að endurheimta þá verið mikilvægt framlag á heimsvísu.
banner5