Fréttir

02.09.2005

Kolefnisbinding er mikilvæg aukaafurð nýskógræktar

Kolefnisbinding skóga
Mikilvæg aukaafurð nýskógræktar
(úr Bændablaðinu, 30. ágúst 2005)

Mynd: Uppsafnað kolefni í gróðri og jarðvegi á jörðu. Heimild og nánari upplýsingar: Vefur EarthTrends

Kyoto-samningurinn varð að alþjóðalögum þann 16. febrúar 2005. Með gildistöku hans varð skógrækt formlega órjúfanlegur hluti af kolefnisbókhaldi Íslands. Þar með er kolefnisbinding með nýskógrækt og landgræðslu dregin frá mengun vegna brennslu jarðefnaeldsneytis þegar nettó losun Íslands er metin fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Strax á næsta ári (2006) verða íslensk stjórnvöld krafin um nánari upplýsingar um árlega skógareyðingu og nýskógrækt á landsvísu. Þetta kom fram í erindi Bjarna Diðriks Sigurðssonar, prófessors í skógfræði og landgræðslu við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem hann flutti á aðalfundi Landssamtaka skógareigenda á Laugum í Sælingsdal fyrir skömmu.

Bjarni Diðrik sagði að líta mætti á kolefnisbindinguna sem nýja afurð frá skógræktarverkefnum bænda og sem (óvænta) endurgreiðslu til ríkisins upp í stofnkostnað við verkefnin. Einnig kom fram í erindi hans að í löndunum í kringum okkur er nú að myndast innri markaður með kolefnisbindingu með nýskógrækt, þar sem einkafyrirtæki og iðnaður greiða skógræktendum fyrir að rækta meiri skóg með milligöngu sérstakra vottunarstofa. Þetta gera þau til að vega upp á móti þeirri mengun sem þau standa fyrir. Það er misjafnt eftir löndum hvort þetta er gert með einhverjum afskiptum ríkisins eður ei, en jafnan er litið mjög jákvætt á uppbyggingu slíks innri markaðar þar sem hann eykur nýskógrækt og auðveldar þannig ríkinu að standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi.

Ennfremur kom fram hjá Bjarna Diðrik að sala og kaup á kolefnisbindingu á innri markaði breyti engu fyrir möguleika ríkisins að nýta kolefnisbindinguna í sambandi við Kyoto-samninginn. Ríkið verður að láta meta kolefnisbindinguna á landsvísu, líkt og mengunin er mæld og metin, og má líta svo á að það sé forsendan fyrir því að kolefnisbinding með nýskógrækt og landgræðslu verði markaðsvara. Sem betur fer hefur landsmat kolefnisbindingar með nýskógrækt verið vel undirbúið á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, en í því sambandi má nefna verkefnið Íslensk skógarúttekt sem metur breytingar á flatarmáli skóga, kolefnisforða þeirra og árangur skógræktar almennt. Þetta verkefni er ómetanlegt tæki til að meta kolefnisbindingu með nýskógrækt á réttan hátt samkvæmt alþjóðareglum.

Bjarni birti nýja spá frá Mógilsá um kolefnisbindingu með nýskógrækt fyrir tímabilið 1990 til 2060. Í lok fyrsta viðmiðunartímabils Kyoto-samningsins, árin 2008 til 2012, mun árleg kolefnisbinding verða um 80-120.000 tonn eða um 6% af losun ársins 1990. Miðað við þær forsendur sem notaðar voru til spárinnar þá nær árleg kolefnisbinding vegna skógræktar hámarki upp úr 2055 með bindingu sem samsvarar 18% af losun ársins 1990. Forsendurnar fyrir spánni eru fremur íhaldssamar og því ber að taka þessum tölum sem lágmarkstölum.

Traust mat mun fást á raunverulega kolefnisbindingu skógræktarsvæða þegar Íslensk skógarúttekt hefur lokið skógvaxtarmælingum á mæliflötum sem dreifðir eru um allt land. Fyrstu niðurstöður þeirra mælinga munu liggja fyrir í haust, en lokatölur eftir um fimm ár.

Gluggi: Hverjir eru núverandi möguleikar íslenska ríkisins til að nýta sér þessa mikilvægu afurð skógræktarverkefna?

Ríkið mun að sjálfsögðu fyrst og fremst leitast við að draga úr útblæstri og annarri mengun til að standa við skuldbindingar sínar vegna Kyoto-samkomulangsins. Þó er ljóst að kolefnisbinding með nýskógrækt og landgræðslu verður einnig mikilvæg mótvægisaðgerð. Í ár nemur áætluð kolefnisbinding nýskógræktar um 3% af
kolefnislosun Íslendinga fyrir árið 1990. Þótt þetta hljómi ekki sem sérstaklega mikið þá samsvarar þetta helmingi þeirrar aukningar sem varð á losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi fyrir tímabilið 1990-2000. Hins vegar er kolefnisbinding með nýskógrækt langtímaaðgerð. Hún heldur áfram svo lengi sem viðarvöxtur og uppsöfnun lífræns efnis á jarðvegi á sér stað, og við flestar tegundir skógræktar nær hún ekki hámarki fyrr en nokkrum áratugum eftir að aðgerðir voru hafnar. Því gæti kolefnisbinding með nýskógrækt um 2050 numið allt að 40% af losun íslenska ríkisins árið 1990, ef spár um aukna nýskógrækt á næstu árum ganga eftir.

Gluggi: Hvað er kolefnisbinding með nýskógrækt?

Kolefni er eitt aðal byggingarefnið í öllu lífrænu efni, það er upp undir helmingur þurrefnis í plöntum jafnt og mannfólki. Kolefnið er upphaflega gas í andrúmsloftinu, svokallað koldíoxíð, en gróður umbreytir því í sykrur með hjálp sólarljóssins og nýtir það sér til vaxtar (myndunar lífræns efnis). Skógar innihalda mest lífrænt efni af öllum þurrlendisvistkerfum. Þegar skóglausu landi er breytt í skóg verður því uppsöfnun (binding) af kolefni svo lengi sem magn lífræns efnis (bæði lifandi í gróðri og dauðu í jarðvegi) er að aukast. Með nýskógrækt eykst magn kolefnis mest ofanjarðar, sem er þá bundið í viði trjánna sem eru að vaxa.
banner2