Fréttir

28.08.2005

Aukin áhersla á skógrækt við Landbúnaðarháskólann

Bjarni Diðrik Sigurðsson tók nýlega við prófessorsstöðu í skógfræði og landgræðslu við Landbúnaðarháskóla Íslands, en hann er fyrsti prófessorinn sem ráðinn er til skólans eftir að hann tók formlega til starfa þann 1. janúar 2005.

Bjarni Diðrik er fæddur í Vestmannaeyjum árið 1966 og er uppalinn á Hofsnesi í Öræfasveit. Faðir hans er Sigurður Bjarnason á Hofsnesi í Öræfasveit og vitavörður í Ingólfshöfða og móðir hans er Álfheiður Einarsdóttir, ættuð frá Strönd í Vestmannaeyjum, en nú búsett á Hvolsvelli. Eftir nokkur ár sem togarasjómaður og húsamálari í Eyjum lét Bjarni Diðrik draum sinn rætast og settist á skólabekk í Háskóla Íslands, þaðan sem hann lauk líffræðigráðu árið 1993. Að afloknu líffræðinámi hóf hann störf hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, þar sem hann vann í nokkur ár að rannsóknum á sviði trjálífeðlisfræði í nánu samstarfi við Mógilsá og erlenda háskóla. Árið 1997 fluttist Bjarni Diðrik til Svíþjóðar og lauk árið 2001 doktorsgráðu í skógvistfræði frá skógfræðideild sænska Landbúnaðarháskólans í Uppsölum. Að því loknu hóf hann störf sem sérfræðingur á Mógilsá ? þar sem hann hefur stýrt rannsóknum á áhrifum skógræktar á lífríkið, jarðveg og á kolefnisbindingu.

Landbúnaðarháskóli Íslands og Skógrækt ríkisins hafa nú gert með sér samstarfssamning um aukna áherslu á kennslu og rannsóknir á sviði skógfræði við skólann. Að sögn Bjarna Diðriks, þá mun þetta gjörbreyta allri aðstöðu hans til að byggja upp metnaðarfullt nám í þessari nýju búgrein við háskólann. Þetta er góður samningur, segir hann, Skógrækt ríkisins býður fram rannsóknaaðstöðu og fagþekkingu og fær á móti margar fúsar hendur námsmanna sem vinna BS-verkefni eða ljúka jafnvel meistaragráðu á þeirra fagsviði.

Frétt á bondi.is
banner5