Fréttir

21.06.2005

Skógarmenn í víking í Skotlandi VI: Tay skógarvarðarumdæmið

Síðasti dagur ferðar Jóns, Aðalsteins og Þrastar til Skotlands í október 2003 var helgaður umræðu um og skoðun á ríkisskógum Skotlands, markmiðum og rekstri þeirra.  Hittum við fyrst Bob MacIntosh, skógræktarstjóra Skotlands, og fræddust um nýtt skipulag skógræktar á Stóra Bretlandi.  Skotland og Wales hafa sínar eigin skógræktarstofnanir og skógræktarstefnu sem er að mestu óháð stefnu Englands.  Rannskóknir í þágu skógræktar eru þó enn sameinaðar.

Svo var haldið ásamt Charlie Taylor skógarverði til Weem Woods þar sem finna má dæmi um nýtekna stefnu í rekstri skógarins.  Weemskógur er við hlið kastala Menzies ættarinnar sem kemur nokkuð við sögu skógræktar í Skotlandi.  Nafnið er borið fram Mengís eða jafn vel Mingus og ber dögglingsviður nafn ættarinnar (þ.e. í latneska heitinu) eftir Archibald nokkurn Menzies sem kannaði skóga víða um heim á öndverðri 19. öld.

Nýleg framkvæmdaáætlun fyrir Weemskóg er byggð á mati á notkun og nýtingarmöguleikum þar sem hverri tegund nýtingar í fjölnytjaskógrækt er gefið huglægt vægi.  Nýtingarflokkarnir eru: timbur, útivist, landslagsvernd og náttúruvernd.  Í þeim hluta Weemskógar sem liggur næst vegi og við skoðuðum var til dæmis spurning um að leggja áherslu á endurheimt upprunalegs eikarskógar (náttúruvernd), en slíkt hefði þýtt að fjarlægja þyrfti allt að 200 ára gömul tré (beiki, hlyni og dögglingsvið) með tilheyrandi röskun.  Í þessu tilviki var talið að útivistargildi skógarins væri meira en gildi þess að endurheimta einhverskonar upprunalegt ástand og því fá hin glæsilegu innfluttu tré að vera áfram.  Einungis lyngrósin Rhododendron ponticum verður fjarlægð, en hún gerir skógarbotninn ómanngengann.

Næst var farið að Drummond Hill, þar sem útivist, landslagssjónarmið, náttúruvernd og timburframleiðsla fara saman í ekta fjölnytjaskógi.  Við áðum þar sem var geysifallegt útsýni yfir Loch Tay á aðra hönd en þéttur sitkagreniskógur á hina.

Eftir pílagrímsferð til Fortingal, þar sem vex ýviður einn mikill,  um 5000 ára gamall, talinn af sumum elsta lífvera í Evrópu, var farið í náttúrlegann birkiskóg þar sem ilmbjörk var aðaltegundin.  Voru eldri tré þar öll einstofna og tiltölulega beinvaxin en yngri tré gjarnan margstofna og kræklótt.  Ekki kunnu heimamenn góða skýringu á þessu en hugsanlega er þar um að ræða mun á trjám sem vaxin eru upp af fræi eftir sjálfsáningu annars vegar og hins vegar trjám sem vaxin eru upp af teinungi eftir að gamli stofninn var fallinn.  Annar möguleiki er að munur hafi verið á beitarálægi á mismunandi tímum.

Um kvöldið var síðan farið á opnun sýningar í Craigvinianskógi sem bar nafnið ?The Enchanted Forest? og var blanda af ljósasýningu og leiklist.  Tilgangur sýningarinnar var að vekja athygli á skóginum, fá fólk í heimsókn, og virtist það takast ágætlega.  Sama hugmyndafræði og með listasýningar í Hallormsstaðaskógi.  Töluðu gestgjafar okkar um að þetta væri leið til að hækka ?prófíl? skógarins.

Svo var ekið heim til gestgjafa okkar hennar Jean Balfour þar sem við gistum síðustu nótt þessarar mjög svo lærdómsríku Skotlandsferðar. Lýkur þar með þessari frásögn.

Skógræktarstjórar Íslands og Skotlands, Jón Loftsson og Bob MacIntosh, ásamt Charlie Taylor skógarverði og Jean Balfour Íslandsvini skoða Weem Wood.

Kveðja,

Þröstur Eysteinsson
banner5