Fréttir

28.05.2005

Mikilvægi skóga í Evrópu - og á Íslandi

Úr Morgunblaðinu, laugardaginn 28. maí, 2005 (Aðsent efni)

Mikilvægi skóga í Evrópu - og á Íslandi

Sigvaldi Ásgeirsson fjallar um skógrækt: "Á vatnasviðum bergvatnsánna eru miklir veiðihagsmunir í húfi."

UNDIRRITAÐUR fór til Póllands síðastliðið haust. Upphaf málsins má rekja til þess, að haldnar hafa verið nokkrar ráðherrastefnur um verndun skóga í Evrópu. Stefnur þessar ganga undir hinu sameiginlega heiti: the Ministerial Conferences on the Protection of Forests in Europe, skammstafað MCPFE. Út frá MCPFE hafa sprottið ýmis rannsóknaverkefni. Ráðstefnan í Póllandi var síðasti fundur vinnuhóps, sem meta átti leiðir, sem farnar hafa verið af hinu opinbera, til að örva skógrækt í Evrópu og möguleika á að gera leiðir þessar skilvirkari. Hér verður gerð grein fyrir rökunum fyrir því, að Evrópumenn vilja viðhalda og helst auka útbreiðslu skóga í löndum sínum.

Mikilvæg auðlind

Skógur hefur á undanförnum áratugum verið vaxandi auðlind í Evrópu, bæði að umfangi og þýðingu. Efnahagsleg þýðing skóganna er óumdeild. Þó hefur timburverð verið í lágmarki á allra síðustu árum. Þessu valda tímabundnar aðstæður, einkum aukið skógarhögg í Eystrasaltslöndunum og eftir hrun járntjaldsins. Þessi aukning skógarhöggsins í nefndum ríkjum er ekki sjálfbær, þar sem meira hefur verið höggvið en nemur heildarviðarvexti í skógunum. Þessu veldur m.a. einkavæðing skóga, án þess að byggt hafi verið upp réttar- og lagaumhverfi, sem tryggir sjálfbæra nýtingu þeirra. Fljótlega mun draga úr timburframleiðslu í Eystrasaltsríkjunum. Jafnframt vex eftirspurn eftir viðarafurðum ár frá ári. Einkum munar þar um risann í austri, Kína.

Skógur þekur nokkra tugi prósenta af yfirborði flestra landa Evrópu. Einna lægst er hlutfallið á Írlandi og í Moldavíu eða tæp tíu prósent. Hlutfall skóga er raunar langlægst á Íslandi eða 0,3%.

Samfélagsleg þjónusta skóganna

Talið er, að raunverð á timburafurðum muni hækka á næstu áratugum vegna aukinnar eftirspurnar, samfara mun minni aukningu framboðs. Hið lága verð hin allra síðustu ár hefur orðið til þess, að auðlindahagfræðingar hafa í ríkari mæli beint sjónum sínum að "samfélagslegri þjónustu skóganna". Þjónusta þessi er af ýmsu tagi og kannast margir hér á landi við hugtökin, sem þar um ræðir:

1. Jarðvegsvernd. Jarðvegurinn er mikilvægasta auðlind jarðarinnar, enda undirstaða fæðuöflunar. Skógur er talinn gegna lykilhlutverki við verndun jarðvegsauðlindarinnar.

2. Vatnsvernd. Drykkjarvatn er jafnnauðsynlegt mannkyni og matur. Í Evrópu er leitast við að rækta skóg á vatnsverndarsvæðum. Skógurinn síar mengunarefni úr regninu og veldur því að stærri hluti vatnsins leitar niður í jörðina og myndar grunnvatn í stað þess að renna til sjávar á yfirborði. Einnig stuðlar skógur að betri lífsskilyrðum fyrir fisk í ferskvatni og eykur frjósemi strandsjávar - styrkir fiskistofna.

3. Hreinsun andrúmsloftsins. Skógur bindur kolefni. Aukin skógrækt vinnur því gegn hinum svokölluðu gróðurhúsaáhrifum.

4. Bætir skilyrði til útivistar. Offita er orðin faraldur. Besta ráðið gegn offitu og sjúkdómum, sem henni tengjast, er aukin hreyfing og útivist. Hægt er að milda vetrarveðrin með ræktun skóga. Fólk sækir í þá til skíðagöngu, gönguferða og útreiða. Aukin útivist og þar með hreyfing er mikilvægt ráð við öðru heilbrigðisvandamáli - þunglyndi.

5. Skógur verndar lífbreytileika. Almenningur mun upplifa meiri fjölbreytni í landslagi og gróðurfari, ef skógar vaxa upp á stórum hluta láglendis á Íslandi. Nóg verður samt víðáttan á heiðum uppi.

Íslendingar vilja framsæknari markmið í skógrækt

Nýleg Gallupkönnun leiddi í ljós, að mikill meirihluti landsmanna vill aukinn skóg á Íslandi.

Því miður gera lög ráð fyrir að aðeins verði ræktaður skógur á 5% láglendis Íslands á næstu fjórum áratugum. Veita þarf miklu meira fé til skógræktar og setja sér metnaðarfyllri markmið.

Tryggja þarf skógrækt markaða tekjustofna með mengunargjöldum á jarðefnaeldsneyti og á þá stóriðju, sem gefur frá sér gróðurhúsalofttegundir.

Meta þarf útivistargildi skóganna að fullu og þann sparnað í heilbrigðisútgjöldum, sem aukin útivist mun hafa í för með sér.

Með aukinni skógarþekju verður Ísland byggilegra og sleppur við þá blóðtöku, sem fylgir stöðugum brottflutningi fólks, sem flýr land ekki af efnahagslegum ástæðum, heldur m.a. af því það vill búa við meiri skjólsæld en stærstur hluti Íslands býður upp á.

Skylda ætti þéttbýlissveitarfélög til að rækta skóg á vatnsverndarsvæðum.

Á vatnasviðum bergvatnsánna eru miklir veiðihagsmunir í húfi. Bændur, sem búa við slíkar ár, ættu að taka sig saman um að efna til stórfelldrar skógræktar til að auka fiskgengd í árnar (sjá nánar HÉR og HÉR). Landgræðsluaðgerðum þarf að fylgja eftir með öflugri skógrækt. Þá fyrst þegar skógur er vaxinn upp á græddu landi þolir landið aftur húsdýrabeit, án hættu á uppblæstri eða vatnsrofi. Með því að efla úthagagróður verða landið og bændurnir í stakk búin til að stórauka kjötframleiðsluna, þegar 1.300 milljónir Kínverja, sem hingað til hafa aðallega lifað á hrísgrjónum sökum fátæktar, taka upp kjötát í vaxandi mæli.

Skógrækt er besta leiðin til að viðhalda búsetu í dreifbýli og hún mun skapa þjóðinni ótrúlega mikla auðlegð til frambúðar, sé hún unnin á vísindalegum grunni.

Höfundur er skógarbóndi.
banner3