Fréttir

22.05.2005

Skógi vaxnir staðir fegurstir að mati þjóðarinnar|

Landið er fagurt og frítt. 
Flestir Íslendingar geta tekið undir þessi orð þjóðskáldsins Jónasar, þótt þeir telji landið mis-fagurt og mis-frítt eftir einstökum landshlutum og stöðum, og þótt smekkur á fegurð landslags sé mismunandi eftir einstaklingum. Þar sem samræmdur, einhlítur mælikvarði er ekki til á fegurð lands verður að beita þeirri aðferðafræði að kanna viðhorf einstaklinga til þess, hvaða svæði eða staðir landsins eru fallegastir, og síðan að ráða í viðhorf þjóðarinnar út frá heildarniðurstöðu könnunarinnar. Í framhaldi af því má skoða hvað ?fallegustu staðir landsins? eiga sameiginlegt.

Fréttablaðið gerði könnun meðal Íslendinga um fegursta stað landsins 8. maí síðastliðinn. Úrtakið var til jafns karlar og konur af öllu landinu; alls 800 manns og var svarhlutfallið tæp 87%. Niðurstaða könnunarinnar er að flestum (13,3%) þykja Þingvellir fegurstir og í öðru sæti er Þórsmörk (6,5%). Á báðum þessum svæðum hefur Skógrækt ríkisins haft umsjón með trjágróðri og skógum áratugum saman. Í þriðja sæti lenti skógi vaxnasti bær landsins, Akureyri (6,3%). Í 4.-7. sæti komu Ásbyrgi (5,9%), Mývatnssveit (5,3%), Skaftafell (4,3%) og Fljótsdalshérað (3,9%), en allt eru þetta staðir eða svæði þar sem skóglendi er áberandi þáttur í landslagi. Er nokkuð ljóst að samspil stórbrotinnar náttúru og heilbrigðs trjágróðurs heillar landsmenn, úr því svæði þar sem skógur er áberandi í landslagi skipa sjö efstu sætin, þegar spurt er hvaða staður á Íslandi er fallegastur.

Fallegustu staðir landsins eiga með öðrum orðum það sameiginlegt að vera vaxnir skógi. Það er umhugsunarefni að sjö staðir landsins, sem eiga það sameiginlegt að vera skógi vaxnir, skuli taldir ?fegurstir í landi hér?, að mati þjóðarinnar. Sérstaklega þegar tillit er tekið til þess að skógur eða kjarr þekur einungis 1,3% af flatarmáli landsins.

Heimild: Fréttablaðið 22. maí 2005, bls. 14-15.
banner2