Fréttir

20.05.2005

Amazon-regnskóginum eytt til þess að metta munna Kínverja og Evrópubúa

Regnskógur í Amazon ruddur með eldi til þess að rýma fyrir sojabaunarækt (Mynd: World News Network)

Gervihnattamælingar sýna að á síðasta ári eyddust 26.130 km2 af Amazonregnskóginum í Brasilíu. Sú tala samsvarar fjórðungi af flatarmáli Íslands og hefur taktur skógeyðingar aukist um 6% milli ára. Hingað til hefur 17% af regnskógum Brasilíu verið eytt, en með sama áframhaldi verða regnskógar þar horfnir innan næstu 40-50 ára. Í regnskógum Amazon er að finna réttan þriðjung af regnskógum heimsins. Þessir regnskógar fóstra afar fjölbreytt lífríki sem mun hverfa um leið og skóginum er eytt. Talið er að á hverju 40 km2 landssvæði í Amazon-regnskóginum megi að jafnaði finna 750 trjátegundir, 125 tegundir spendýra, 400 tegundir fugla og 100 tegundir skriðdýra. Í einu tré í Amazon má finna jafnmargar tegundir maura og finna má á gervöllum Bretlandseyjum.

Orsakir skógareyðingar í Brasilíu, og um leið orsakir eyðingar þessa mikilvægu undirstöðu líffræðilegrar fjölbreytni jarðar, má einkum rekja til ört vaxandi spurnar eftir sojabaunum til skepnufóðurs í Kína og í Evrópu. Aukin eftirspurn stafar einkum af vaxandi velmegun í Kína, sem haft hefur í för með sér aukna spurn eftir kjötmeti á Kínamarkaði. Ástæðan fyrir auknum útflutningi sojabauna til Evrópu er sá uggur sem margir Evrópubúar bera í brjósti gagnvart erfðabreyttum sojabaunum frá Bandaríkjunum sem og ótta við notkun dýramjöls til skepnufóðurs, í kjölfar kúafársins. Skógarnir hafa einkum verið ruddir og brenndir til þess að brjóta land til sojabaunaframleiðslu, en einnig til þess að opna beitiland til nautgriparæktar. Meðal annarra ástæða fyrir eyðingu skóga á þessu svæði eru olíu- og námavinnsla og timburvinnsla. Óskipulagt landnám fátækra, landlausra bænda flýtir enn fyrir eyðingu skóganna. Talið er að í Brasilíu sé að finna 400 þúsund landlausra bænda sem margir hverjir hafa helgað sér land til sjálfsþurftarbúskapar í regnskóginum.

Samantekt: AS

Heimildir og nánari upplýsingar:

Soya farmers to blame for Amazon forest loss (The Scotsman, 20/5 2005)

Amazon destruction accelerating (BBC News, 19/5 2005)

The rape of the rainforest... and the man behind it (The Independent, 20/5 2005) http://news.independent.co.uk/world/environment/story.jsp?story=639814

Amazon Destruction Accelerating in Brazil (Environmental News Network, 19/5 2005)

The Amazon Rainforest 2005 (The Independent, 20/5 2005)
banner4