Fréttir

09.04.2005

Aðkoma ríkisins að kolefnisbindingu samkvæmt ákvæðum

Úr nýjasta vefriti fjármálaráðuneytisins, "fjr.is" sem nálgast má HÉR.

Þær þjóðir sem hafa staðfest Kyoto-bókun Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hafa undirgengist þær skuldbindingar sem þessar samþykktir hafa í för með sér. Að því er Ísland varðar má almennt útstreymi gróðurhúsaloftegunda að meðaltali árin 2008-2012 verða 10% meira en það var árið 1990, eða 3,2 milljónir tonna af CO2 eða ígildi þess því til viðbótar er heimilt að losa allt að 1,6 m.t í samræmi við það sem nefnt hefur verið ?íslenska ákvæðið? en það fjallar um losun gróðurhúsalofttegunda frá nýrri stóriðju.

Stjórnvöld fylgjast náið með losuninni og hafa gripið til ýmissa aðgerða í þeim tilgangi að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar sínar í þessum efnum. Má þar nefna breytingar á skattlagningu á díselolíu sem koma til framkvæmda 1. júlí n.k. Til viðbótar við aðgerðir sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er stjórnvöldum einnig heimilt að binda kolefni með landgræðslu og skógrækt.

Hlutverk landgræðslu og skógræktar er fyrst og fremst að vernda og bæta landkosti með því að stöðva jarðvegsrof og sandfok, græða land og rækta skóga. Við slíkar landbætur binst kolefni í gróðri og jarðvegi sem er jafnframt einn af mælikvörðum árangurs í málaflokknum, þótt vissulega séu markmið stofnananna fjölbreytt og skili sér misvel í mælanlegri kolefnisbindingu. Framlög ríkisins til skógræktar og landgræðslu hafa stóraukist, eða um 170% á föstu verðlagi frá árinu 1990.

Kolefnisbinding með landgræðslu og skógrækt felst í því að umbreyta koltvísýringi, CO2-andrúmslofsins, í lífræn efni sem geymd eru í gróðri og jarðvegi. Samdráttur CO2 losunar og kolefnisbinding eru því tvær mismunandi leiðir að sama markmiði, þ.e. að koma í veg fyrir breytingar á loftslagi jarðar. Í Kyoto bókuninni er kveðið á um að nota megi kolefnisbindingu skóga sem ræktaðir eru frá og með 1990 til frádráttar frá útstreymi koltvísýrings.

Á aðildarþingi loftslagssamningsins haustið 2001 var auk þess ákveðið að þjóðir heims megi nota m.a. kolefnisbindingu með landgræðslu, skógarumhirðu og beitarstjórnun sem leiðir til að mæta skuldbindingum sínum. Aðeins er tekið tillit til skóga á landsvæði sem hefur verið skóglaust í meir en 50 ár.  

Hvert uppkomið tré mun halda áfram að binda kolefni í um 100 ár frá gróðursetningu. Við landgræðslu heldur bindingin áfram í að minnsta kosti 60 ár eftir sáningu eða aðrar landbótaaðgerðir. Heildar koltvísýringslosun Íslendinga er um þrjár milljónir tonna árlega og því nemur bindingin tæpum 8% losunnarinnar.

 Heimsmarkaðsverð á losunarkvótum er frá 800 kr/t (10Є. Til samanburðar er breytilegur einingarkostnaður við bindingu í landgræðslu eða skógrækt frá 400-2.000 kr/t samkvæmt upplýsingum frá Landgræðslu og Skógrækt ríkisins.

 

Heimild:  Vefrit fjármálaráðuneytisins, fjr.is
banner3