Fréttir

18.04.2005

Skógarsnípa - nýr varpfugl á Íslandi

Skógræktarmenn fundu nýja fuglategund, skógarsnípu, í varpi í apríl í fyrra. Var það í stafafuruskógum í Skorradal í Borgarfirði. Bjarni Diðrik Sigurðsson, sérfræðingur á Mógilsá, segir að skógarsnípa hafi ekki áður verið staðfest í varpi á Íslandi. Fuglafræðingar hafi haft grun um að svo væri, en nú hefur það verið staðfest. skógarsnípan er frænka mýrisnípunnar eða hrossagauksins en stærri og ámóta stór og dúfa. Skógarsnípan á heimkynni í nágrannalöndunum. Glókollurinn er líka nýr landnemi á Íslandi og er minnstur fugla í landinu sem og í Evrópu. Hann er minni en músarrindill, sem átti metið hvað smæð snerti. Glókollurinn var þriðji algengasti fugl á Héraði í fyrra, þegar talning fór þar fram í tengslum við rannsóknarverkefni Náttúrufræðistofnunar, fugl og skógur. Náttúrufræðingar hafa reyndar áhyggjur af þessum nýja landnema þar sem lítið hefur heyrst í honum eftir kuldatíð í vetur. Það er því kannski heldur snemmt að halda því fram að glókollurinn sé orðinn íslenskur staðfugl.

Í rannsóknarverkefninu, sem Náttúrufræðistofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands og Rannsóknarstöðin á Mógilsá stóðu að og beindist að áhrifum skógræktar á umhverfið, komu í ljós nýjar lífverutegundir. Hinir upprunalegu íslensku birkiskógar voru einnig til athugunar og í gömlum birkiskógi í Skorradal rákust menn á nýja tegund af ásætum, sem lifa utan á birkitrjám. Þetta eru fléttur sem lafa niður og mynda eins og gluggatjöld í skóginum. Um er að ræða sömu lífverur og við sjáum í ævintýrunum og hafa ekki áður verið skráðar af vísindamönnum og heitir flókakræða. ,,Ef til vill er þetta ekki ný lífvera í birkiskógum, en sýnir að við höfum ekki sinnt nægilega rannsóknum á þessu sviði,? segir Bjarni Diðrik Sigurðsson á Mógilsá.

Teikningin af skógarsnípu er fengin af vef BirdGuides.com (2005).

Bændablaðið, 12. apríl 2005
banner4