Fréttir

18.04.2005

Nýja bújörðin á Núpi í Dýrafirði: Búskaparskógrækt, beitarstjórnun og nýting lands

Úr Bændablaðinu, 12. apríl 2005

Fjölmenni sótti ráðstefnu á Núpi í Dýrafirði um miðjan mars, sem bar yfirskriftina ?Nýja bújörðin?. Samankominn var fjöldi sérfræðinga og framámanna í landbúnaði, skógrækt og landgræðslu. Fjórar stofnanir stóðu fyrir ráðstefnunni, sem voru Skjólskógar á Vestfjörðum, Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins. Ráðstefnan stóð í tvo daga og var hvor dagurinn helgaður sínu þema; búskaparskógrækt fyrri daginn og hinn síðari beitarstjórnun og nýting lands. Fólk öndverðra sjónarmiða var leitt til samræðu á ráðstefnunni og leitast við að fá sjónarmið kynnt og vísindaþekking tíunduð eins og í erindi Emmu Eyþórsdóttur,
sérfræðings við Landbúnaðarháskólann, sem fjallaði um íslenska sauðféð, sérstöðu fjárstofns og búskaparhætti. Þorsteinn Pétursson, formaður Félags skógarbænda á Héraði, hélt erindi um erfiðleika skógræktar vegna lausagöngu sauðfjár á Héraði og kvað einna fastast að orði skógarbænda. Málefnaleg umræða var einkennandi fyrir ráðstefnuna.

Skógræktin í samspili við aðra landnýtingu
Sæmundur Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Skjólskóga á Vestfjörðum, segir að uppleggið hafi verið sambýli skógræktar við aðra landnýtingu á Íslandi. Hvert hlutverk skógræktarinnar gæti orðið með öðrum búskap og hvar núningsfletir kynnu að verða fyrir hendi við annan búskap. ,,Þar kemur lausaganga sauðfjár, sá gamli draugur, inn á sviðið en ráðstefnunni var stillt þannig upp að við fengum hagsmunaaðila til þess að tala sínu máli. Ég get ekki alveg fallist á það að ekki hafi borið á andstæðum sjónarmiðum milli manna á ráðstefnunni, en umræðan var bæði málefnaleg og kurteis. Þegar menn fara kinnroðalaust beint í málin, þá er ekki byrjað á einhverju alkunnu gömlu stagli. Til dæmis voru uppi deilur fyrir nokkrum misserum um skógrækt gagnvart fuglalífi og öfugt. Stór orð fóru á milli manna um hvort það væri tilræði við rjúpnastofninn að auka skógrækt og hvort einnig væri hugsanlega þrengt að mófuglinum. Á þessari ráðstefnu var kynnt rannsókn, sem ákveðin var í kjölfar umræðunnar, og komin niðurstaða. Skógur er fugli gagnsamlegur og fuglinn skóginum.?

Kornrækt á berangri
Búskaparskógrækt er nýyrði sem fylgir breyttum tímum. Tveir ágætir sérfræðingar frá Bretlandseyjum fjölluðu um beitarskógrækt svo og skjólbelti og skjólskóga í nyrstu héruðum Englands og Skotlands. Alan Sibbald er sérfræðingur í landnýtingu og beitarskógum og starfar hjá Bresku landbúnaðarskógunum, en Alistair McLeod er
forstöðumaður Skógræktar ríkisins í Norður-Skotlandi. Þeir gerðu grein fyrir mikilvægi búskaparskógræktar og skjólbelta fyrir búpening. Sæmundur Þorvaldsson hefur lengi séð fyrir sér breyttan landbúnað og breytt mannlíf á Vestfjörðum í lundum nýrra trjáa. Hann vék að kornræktinni, eins og hún er stunduð á Íslandi, enda orðin
viðurkennd búgrein með aðstoð ríkisins.

,,Ég skil ekkert í kornrækt á Íslandi, hvernig bændur eiginlega stunda þá iðju. Má líkja því við að maður sé að byggja sér stórt og vandað hús, sem hann ætlar að láta sér líða vel í, en gleymir að setja glerið í gluggana. Ísland er á mörkum þess að þar sé hægt að stunda kornrækt. Við Íslendingar erum þeir einu sem ekki nota skjólbelti til að skýla korninu. Allar kornræktarsþjóðir á norðlægari breiddargráðum láta sér ekki detta annað í hug en að rækta skjólbelti þar sem þær erja kornakra sína. Mér finnst umhugsunarefni hvernig leiðbeiningarþjónustu okkar er háttað yfir höfuð. Greinin er að hluta til komin inn í stuðningskerfi ríkisins, sem ég hef ekkert við að athuga, en ég hef sitthvað við það að athuga að menn skuli ekki nýta sér þau tæki, sem þeir hafa í höndunum, sem er skjólbeltaræktun.?

Hjarðmenn Íslands
Í meginatriðum hefur sauðfjárrækt í landinu búið við sömu lögmál í langan tíma. Hleypt til um jólaleytið, burður í maí, hagaganga fram á haust. Þá rekið og síðan keyrt í sláturhús og afurðir frystar. Sæmundur segir að markaðurinn kalli orðið á allt annan afhendingartíma á sauðfjárafurðum og á sem lengstum tíma. ,,Hér hefur viðgengist lausaganga sauðfjár, sem svo er smalað saman einu sinni á ári. Ég sé ekki annað en að hjarðmennskan verði eingöngu stunduð af þeim, sem vilja snæða sína eigin framleiðslu. Hinir hljóta að skoða málin með tilliti til markaðarins og hvenær hann kallar eftir kjöti. Hins vegar stilltum við þessu ekki svona upp á ráðstefnunni. Reyndum að kalla fram alla hugsanlega fleti og þá einnig hvaða gildi það fyrirkomulag hafi fyrir auðfjársamfélögin, sem lengst hefur verið við lýði. Í núverandi búskaparháttum eru fólgin verðmæti eins og bændur hafa sjálfir lýst. En ef við lítum á dilkakjötsframleiðslu sem rekstur og lífsafkomu, þá er það allt annað mál. Bændur
verða að geta gengið að fé sínu og fært til slátrunar þegar það hentar, sem þýðir að það verður að vera í einhverjum afgirtum hólfum. Sú hugmynd að reka fé í sameiginlega heimaafrétti er góð og gild en takmarkanirnar eru þær að menn eru ekkert nær því að geta stjórnað framleiðslunni svo vit sé í. Hrærandi í fénu í nokkra mánuði sem ekki þótti gott þegar ég var smali. Grundvallarreglan var að láta það í friði. Að mínu viti verður að hefja markvissa beitarstjórn með sauðfé. Það kostar áreiðanlega stórfé og bændur verða að fá mikla aðstoð til að ná þessu fram. Ef það fer eftir, er ég sannfærður um, að þetta er hægt við flestar aðstæður. Við skógræktarmenn erum nú að girða yfir fjöll og upp í hlíðar og reynum að hafa ræktarsvæðin sem stærst og forma skógræktina eftir landinu. Reynum að komast hjá því að girða af leiðir og heimilum rekstur gegnum afgirt svæði, ef á þarf að halda. Það sést best á því sem Vestfirðingar hafa gert að sauðfjárbúskapur og skógrækt þurfa ekki að vera andstæður. Stærstur hluti skógræktarbænda á Vestfjörðum býr einnig með sauðfé og hefur verið til fyrirmyndar.?

Fimmtíu skógræktarjarðir
Skjólskógar á Vestfjörðum eiga sér fimm ára sögu en þrjú árin þar á undan var rekin stofnun með sama nafni í tveimur hreppum Vestur-Ísafjarðarsýslu með opinberum stuðningi. Sæmundur segir að þá þegar hafi stefnan verið mörkuð og ekkert hik á fólki við stofnun Skjólskóga hinna síðari. Í haust leið voru fjörutíu jarðir með samninga um skógrækt eða skjólbeltarækt og tólf jarðir að bætast við. Á obbanum af þessum jörðum er jafnframt rekinn hefðbundinn landbúnaður, einkum sauðfjárrækt. Alls hafa verið gróðursettar fimmtán hundruð þúsund plöntur á vegum Skjólskóga og eru bjarkir hlutfallslega lang ,,fjölmennastar?. Skógræktin er í hólfum, en ekki sauðféð, og margar reglur eru fyrir hendi sem takmarka ,,lausagöngu?skógar.

,,Skógræktin er leyfisskyld eins og annar atvinnuvegur,? upplýsir Sæmundur, ,,og getur land þurft að fara í umhverfismat á viðkvæmum svæðum, ellegar ef um stórar skógarspildur er að ræða. Við höfum ekki lent í slíku enn þá.?

Sauðkindin gagnvart hinu
Sæmundur segist hafa í aðdraganda ráðstefnunnar einatt hnotið um stöðu sauðkindarinnar gagnvart öðrum landnytjum. ,,Það er ekki bara skógræktin, heldur hvers konar önnur not og ásýnd, sem fara ekki saman við hefðbundna lausagöngu sauðskepnunnar. Ég hef orðað það svo að hugsanlega muni kratar allra stjórnmálaflokka sameinast um að afnema lausagönguna með lögum. Sú var tíðin að lausaganga stórgripa var ekki bönnuð og lausaganga hunda er ekki leyfð, nema í sveitum og sjálfsagt mál. Ég sé ekki að ríkið geti endalaust staðið frammi fyrir því að allir aðrir þurfi að girða gagnvart því ríkisstudda fyrirkomulagi, sem sauðfjárræktin er. Gaman að segja frá því að einn af starfsmönnum Skjólskóga var á ferð í Nýja-Sjálandi fyrir skömmu. Hann fór um Suðureyjuna, sem er fjalllend og er miklu groddalegra land en Ísland, og er stundaður þar sauðfjárbúskapur til kjötframleiðslu. Nýsjálendingar skildu ekki spurningu Íslendingsins um lausagöngu sauðfjár þegar hún var borin upp. Eina tilfellið þar sem hún viðgekkst var sameiginlegur girtur afréttur og eingöngu fyrir sauðfé til ullarframleiðslu. Þar var akkúrat smalað einu sinni á ári og fénu síðan sleppt aftur þegar ullin hafði verið tekin af.?

Sagt eftir leikinn

Ýmsum nýjum flötum var velt upp á ráðstefnunni á Núpi og Sæmundur segist ekki hafa heyrt annað á mönnum, en að þeir væru ánægðir með þær umræður og erindi sem flutt voru. ,,Við tökum gjarnan við nýjum kenningum og nýjum heitum og eigum oft erfitt að sjá það í samhengi við það gamla sem við höfum tileinkað okkur. Orð eins og búsetulandslag og landbúnaðarskógar svo dæmi séu tekin. Áreiðanlega verða breytingar ef lausaganga sauðfjár verður bönnuð. Þá breytist til dæmis búsetulandslagið. Og búsetulandslag aldanna er breytilegt og tekur mið af hverjum tíma. Það þýðir að við verðum að taka tillit til margra sjónarmiða, hvort nýir landeigendur ætla að stunda sauðfjárrækt eða skógrækt eða einfaldlega að njóta útivistar á jörð sinni og sinna náttúrurvernd. Stórbreyting varð á að þessu leyti með nýjum jarðalögum frá því sumar, en kannski hefði átt að grípa fyrr inn í, hefðu menn viljað hafa meiri áhrif þróunina.?

 Texti: Finnbogi Hermannsson
banner2