Fréttir

20.04.2005

Nálaskemmdir

Aldrei skal ára áfallalaust
Árans skaðar verða
Vetur sumar vor og haust
Vargar skóginn skerða

Á Héraði ber nú talsvert á nálaskemmdum, einkum á stafafuru, en einnig á fjallaþin, rauðgreni og fleiri tegundum. Eru skemmdirnar ekki einskorðaðar við innfluttar trjátegundir og sér talsvert á bæði krækilyngi og sortulyngi. Vargurinn í þetta skiptið er sennilega frostþurrkun nála í miklum og langvarandi suðvestanveðrum í vetur.

Ekki er að sjá að neinar skemmdir séu á lerki eða lauftrjám. Reynslan er einnig sú að skemmdir sem þessar eru einkum bundnar við nálar og því sennilegt brum trjánna sem skemmdust séu að mestu í lagi. Það er því líklegt að trén nái sér vel með vorinu.


Frétt af heimasíðu Skógræktar ríkisins
banner1