Fréttir

27.04.2005

Jarðvinnslunámskeið

22. - 23. apríl var seinasta námskeiði í Grænni skógum I þennan veturinn. Heiti námskeiðsins var undirbúningur lands til skógræktar. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Böðvar Guðmundsson skógræktarráðunautur hjá Suðurlandsskógum og Hreinn Óskarsson skógarvörður hjá Skógrækt ríkisins. Námskeiðið endaði með því að það var farin vettvangsferð um Héraðið.

Farið var að Hafursá og skoðuð jarðvinnsla frá 1982 sem var framkvæmd með skoska plógnum en sá tók 60 sm djúpar rásir. Komið var við að Gíslastöðum hjá þeim Sæmundi Guðmundssyni og Ellen Thamdrup og skoðuð jarðvinnslutæki en Sæmundur hefur verið verktaki í jarðvinnslu hjá bændum í Héraðsskógaverkefninu. Sæmundur hefur einnig smíðað og hannað skógarplóga sem hafa reynst vel. Farið var að Kaldá á jörð þeirra Gísla Guðmundssonar og Katrínar Ásgrímsdóttur, skoðaðar jarðvinnslur eftir TTS- herfi og framræsla og plægingar sem voru unnar með plóg smíðuðum af Sæmundi á Gíslastöðum. Þá voru skoðaðar plægingar og framræsla að Ekkjufelli í landi Sigbjörns Brynjólfssonar og Kristínar Jónsdóttur. Námskeiði endaði með því að skoða var TTS-herfi sem Unnar Elisson flutti inn fyrir nokkru.

Þetta var fimmta námskeiðið í námskeiðsröð Grænni skóga I á Austurlandi en áður hafa veið haldin námskeiðin Skógur og landnýting, Val á trjátegundum, Skógarhönnun og landnýtingaráætlanir og Verndun fornminja og náttúru í skógrækt. 26 skógarbændur hafa sótt þessi námskeið og hafa þau mælst vel fyrir.

Námið samanstendur af 17 námskeiðum þar sem 13 eru skyldunámskeið og a.m.k. 2 valnámskeið. Námskeiðsröðin spannar yfir þrjú ár eða frá 2004 ? 2007. Hvert námskeið er í tvo daga í senn og þá yfirleitt frá kl. 16:00 til 19:00 á föstudegi og frá kl. 10:00 til 17:00 á laugardegi. Reynt er að koma við verklegri kennslu og vettvangsferðum eins og passar hverju sinni. Þátttakan í náminu fór fram úr björtustu vonum og því greinilegt að það er þörf fyrir nám sem þetta fyrir skógarbændur.
banner1