Fréttir

07.03.2005

Sendinefnd frá Mongólíu í heimsókn

Föstudaginn 4. mars fengum við góða gesti í heimsókn á Rannsóknastöðina á Mógilsá. Voru þeir komnir um langan veg eða alla leið frá Mongólíu. Hér var um að ræða mongólska sendinefnd í vináttuheimsókn hjá landbúnaðarráðherra Íslands, Guðna Ágústssyni.

Á Mógilsá fengu gestirnir kynningu á skógrækt á Íslandi og starfsemi Rannsóknastöðvarinnar. Mikill áhugi reyndist meðal gestanna á því að auka tengsl sín við Íslendinga á sviði skógræktar- og landgræðslumála, enda margar hliðstæður í sögu skógeyðingar, gróðurhnignunar og jarðvegseyðingar í löndunum tveimur. Einkum voru þeim hugleiknar aðferðir íslenskra stjórnvalda til þess að hvetja landeigendur til þess að rækta skóg á landi í einkaeign, með fjárhagslegum stuðningi frá stjórnvöldum. Í Mongólíu er landhnignun vegna ofbeitar og eyðing skóga alvarlegustu umhverfisvandamál sem við er að kljást. Vilja stjórnvöld þar finna leiðir til þess að auka flatarmál skóglendis og skjólbelta, í því augnamiði að fyrirbyggja frekari hnignun umhverfis af mannavöldum. Nánari upplýsingar um skóga og skógrækt í Mongólíu má finna HÉR.

Mynd 1: Frá vinstri: (1) Dalrain Davaasambuu, ambassodor Mongólíu á Íslandi (með aðsetur í Lundúnum), (2) Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður á Mógilsá, (3) Avirmedyn Battur, varautanríkisráðherra Mongólíu, (4) Yaichil Batsurrir skrifstofustjóri evrópumála í Mongólíu og (5) Friðrik Hróbjartsson stjórnarmaður í vináttufélagi Mongólíu og Íslands. Á myndina vantar Þorstein Tómasson, skrifstofustjóra í landbúnaðarráðuneytinu, en hann tók myndina.

Mynd 2: NOAA gerfihnattarmynd af Mongólíu (?ESRI"s World Worldsat Colour Shaded Relief Image?). Skógur þekur u.þ.b. 10% af flatarmáli Mongólíu og er hann einkum að finna í fjöllóttum norðurhluta landsins, við rússnesku landamærin.
banner5