Fréttir

10.03.2005

Rætt um samvinnu Íslands og Kenýa á sviði skógræktarmála

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra átti þann 23. febrúar sl. fund með dr. Wangari Maathai, aðstoðarráðherra umhverfis- og auðlindamála í Kenýa, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2004 fyrir störf sín að friðar- og umhverfismálum. Fundurinn var haldinn í Naírobí, en þar var Sigríður Annna stödd vegna fundar í stjórnarnefnd Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var dagana 21.-23. febrúar, segir í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.

Wangari Maathai er fyrsta afríska konan sem hlýtur friðarverðlaun Nóbels. Í heimalandi sínu er hún einkum þekkt fyrir baráttu sína fyrir verndun umhverfisins og bættri stöðu kvenna og hefur tengt þau málefni sérstaklega lýðræði og friði. Árið 1977 stofnaði hún The Green Belt Movement, hreyfingu kvenna sem gróðursetja tré með það að markmiði að bæta umhverfið og lífsskilyrði kvenna. Frá stofnun hreyfingarinnar hafa konur í Kenýa gróðursett 30 milljónir trjáa og hreyfingin hefur breiðst út til annarra landa í Afríku.

Á fundi sínum ræddu ráðherrarnir um stöðu umhverfismála í heiminum og helstu viðfangsefni framtíðar á því sviði, svo sem loftslagsbreytingar, framkvæmd sjálfbærrar þróunar og mengun hafsins. Ráðherrarnir ræddu um aukna samvinnu ríkjanna í umhverfismálum, meðal annars á sviði jarðhitanýtingar, landgræðslu og skógræktar. Skógar þekja nú aðeins 2% af landi í Kenýa en stefnt er að því að fimmfalda skógarþekjuna í nánustu framtíð. Fram kom á fundinum að nú eru starfandi sérfræðingar við nýtingu jarðhita í Kenýa sem hlotið hafa þjálfun í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Heimild: Vefsíða Umhverfisráðuneytisins
banner4